Skip to main content

Kyrrðarstund fyrir palestínsku þjóðina á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. nóv 2023 12:23Uppfært 27. nóv 2023 12:34

Haldin verður kyrrðarstund og kveikt verður á kertum til minningar fórnarlamba stríðsátakanna í Palestínu á Djúpavogi síðdegis í dag og það gert við listaverkið Frelsi.

Það er Íris Birgisdóttir sem er að hvetja til þátttöku og segir nokkuð táknrænt að gera það við listaverkið Frelsi eftir Sigurð Guðmundsson en það var upphaflega afhjúpað til minningar um Hans Jónatan, verslunarstjóra á Djúpavog, en hann var fyrsti blökkumaðurinn til að setjast að á Íslandi.

„Mér fannst sú staðsetning og verkið sjálft dálítið táknrænt fyrir frið og umburðarlyndi og fékk leyfi frá Sigurði sjálfum til að kveikja þarna á kertum og eiga stund saman. Auðvitað hugsar maður alltaf að það sé svo lítið sem maður geti gert en þá verður mér alltaf hugsað til sögu sem ég sá á samfélagsmiðlum af því þegar Víetnamstríðið geysaði um mann sem stóð alla daga meðan stríðið varði með kerti fyrir utan Hvíta húsið í Bandaríkjunum. Hann var einmitt spurður hvort hann teldi að slíkt breytti nokkrum hlut. Hann svaraði á þá leið að hann teldi svo ekki vera en það kæmi að minnsta kosti í veg fyrir að stríðið breytti honum sjálfum og færi að taka stríð í sátt sem eðlilegum hlut.“

Sjálf fylgist Íris eins vel með fréttum af átökum Ísrael og Palestínu og henni er unnt eins og hún segir sjálf.

„Ég fylgist með fréttum af þessum átökum eins og maður treystir sér til því þetta eru svo skelfilegt. En mig langaði að gera eitthvað til að sýna að maður stendur með saklausum fórnarlömbum hvar sem þau eru. Það er fullt af saklausu fólki sem orðið hafa fórnarlömb þessara átaka og af ýmsum þjóðernum og þessi viðburður er fyrir alla sem er ekki alveg sama.“

Kyrrðarstundin hefst stundvíslega klukkan 17 í dag.