Lægsta tilboð í Baug Bjólfs 48% yfir kostnaðaráætlun
Aðeins tveir aðilar gerðu tilboð í byggingu útsýnispallsins Baugs Bjólfs í hlíðum fjallsins Bjólfs hátt yfir Seyðisfirði. Bæði tilboðin hátt yfir kostnaðaráætlun.
Af hálfu Múlaþings er nú vinna hafin við að fara yfir tilboðin sem bárust. Tveir aðilar, MVA og Úlfsstaðir ehf., gerðu tilboð í verkið sem snýst um smíðina sjálfa en þegar er búið að vinna alla helstu undirbúningsvinnu vegna verksins.
Kostnaðaráætlun Múlaþings í útboðinu hljóðaði upp á rétt tæpar 146 milljónir króna og ráð fyrir gert að verkinu yrði lokið sumarið 2025 í síðasta lagi. Tilboð MVA var upp á tæpar 216 milljón króna eða 48% yfir kostnaðaráætlun meðan tilboð Úlfsstaða nam 303 milljónum króna eða rúmlega helmingi hærri kostnað en sveitarfélagið gerir ráð fyrir.
Hugmyndir Múlaþings gera ráð fyrir að verkið hefjist strax næsta vor en gangur þess fer mjög eftir veðri og vindum enda pallurinn afar hátt uppi og þar allra veðra von auk þess sem ófært er þangað stóran hluta vetrar.
Í fyrstu útgáfu var ranghermt að lægsta tilboð hefði verið 148% yfir áætlun.