Skip to main content

Leiguverð á nýjum íbúðum Bríetar á Breiðdalsvík of hátt fyrir mistök

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. ágú 2023 11:01Uppfært 23. ágú 2023 11:05

Leigufélagið Bríet lækkaði verð á tveimur leiguíbúðum á Breiðdalsvík og einni á Stöðvarfirði eftir athugasemdir Austurfréttar um að verðið væri langt yfir markaðsverði. Félagið segir mistök hafa orðið þar sem takmarkaðar upplýsingar séu aðgengilegar um leiguverð á svæðinu.


Leigufélagið Bríet, sem er í opinberri eigu og ætlað að örva leigumarkað í landinu, auglýsti íbúðirnar þrjár til leigu í sumar. Um var að ræða tvær íbúðir í nýbyggðu parhúsi við Hrauntún á Breiðdalsvík og eina í parhúsi á Stöðvarfirði. Það hús er tæplega 40 ára gamalt en stutt síðan íbúðin var tekin í gegn að innan.

Leiguverð íbúðanna var í öllum tilfellum yfir 2.000 krónur á fermetra. Eftir ábendingu athugaði Austurfrétt leiguverð á svæðinu í gegnum vefinn fastinn.is sem sækir og birtir upplýsingar úr þinglýstum kaup- og leigusamningum.

Sú athugun sýndi meðal annars að almennt leiguverð á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík er um 1.100-1.200 krónur á fermetrann. Í kjölfarið óskaði Austurfrétt eftir skýringum frá Bríeti á verðlagningu íbúðanna þriggja, meðal annars með tilliti til þess hvort hið opinbera væri þarna að ýta upp leiguverði á svæðunum sem á móti gæti reynst öðrum leigjendum erfitt.

Eftir fyrirspurn Austurfréttar var leiguverðið lækkað fyrir viku. Það fór niður í 1.800 krónur á Breiðdalsvík en 1.700 krónur á Stöðvarfirði. Minni íbúðin á Breiðdalsvík hefur nú verið leigð.

Lítið af gögnum um leiguverð


Í svari Bríetar við spurningum Austurfréttar segir að gerð hafi verið mistök þegar leiguverðið var ákvarðað á eignunum þar sem þá hafi ekki legið fyrir nógu nákvæmt gögn um leiguverð á svæðinu til viðmiðunar. Erfitt geti verið að fá góð gögn á leiguverði í minni byggðarlögum þar sem opinber gögn innihaldi aðeins þinglýsta samninga sem séu stundum aðeins 1-2 á ári.

Þegar Austurfrétt reyndi á vefsjá leiguverðs fyrir Breiðdalsvík og Stöðvarfjörð á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem er yfirstofnun Bríetar, komu skilaboð um að ekki væru næg gögn fyrir hendi. Samkvæmt vefsjánni er meðalleiguverð í Fjarðabyggð 1.600, hæst á Fáskrúðsfirði þar sem það nær yfir 2.000 krónur. Að baki Fáskrúðsfirði eru fimm samningar.

Fyrsta húsið á Breiðdalsvík í rúm 30 ár


Í svari Bríetar er einnig bent á að húsnæðið á Breiðdalsvík sé nýtt, hið fyrsta sem sé byggt þar síðan í lok níunda áratugarins. „Því erum við stolt af og teljum þetta tímamót í að rjúfa kyrrstöðu á húsnæðismarkaði á stað eins og Breiðdalsvík. Hins vegar er ljóst að nýtt húsnæði er dýrt í uppbyggingu og þar sem að markaðsbrestur hefur verið mikill þá getur uppbygging sem þessi þýtt hærra leiguverð á nýjum eignum en á þeim eignum sem fyrir eru á markaði. Sumar þeirra eru jafnvel orðnar 50 ára eða eldri.

Einnig getur mikið viðhald og endurnýjun á eignum haft áhrif á leiguverð einstakar eigna þegar búið er að eyða miklum fjármunum í endurbætur á eldra húsnæði.“

Þarf að skoða frekari aðkomu ríkisins þar sem markaðsbresturinn er mestur


Þar segir að Bríet hafi undanfarin ár gripið inn í húsnæðisskort og kyrrstöðu á fasteignamarkaði víða á landsbyggðinni með að byggja nýtt húsnæði til að skapa virkan leigumarkað. Það geti sums staðar verið erfitt, til dæmis á Breiðdalsvík, þar sem miklu muni á byggingarkostnaði og fasteignaverði því þá taki markaðsverð leigu ekki mið af raunbyggingarkostnaði.

„Ef halda á áfram í slíkum verkefnum, sér í lagi í brothættum byggðum þarf að skoða frekari aðkomu ríkisins á þeim svæðum, með sérstökum framlögum til að lækka byggingarkostnað og þar með leiguverð. Leigufélagið Bríet er óhagnaðardrifið félag sem þýðir að það greiðir ekki arð til eigenda.

Engu að síður þarf starfsemi félagsins að standa undir rekstri á eignum félagsins og fjárfestingum í viðhaldi og uppbyggingarverkefnum eins og á Breiðdalsvík, Seyðisfirði og Neskaupstað sem eru verkefni sem félagið hefur verið í á Austurlandi að undanförnu,“ segir í svarinu.

Húsin við Hrauntún eru þau fyrstu sem byggð eru á Breiðdalsvík frá árinu 1989. Mynd: Bríet