Lagfæringar á austfirskum vegum halda áfram í haust
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. sep 2025 11:16 • Uppfært 03. sep 2025 11:19
Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, boðar að haldið verði áfram viðgerðum við klæðningar á vegum á Austurlandi í haust. Hann segir að ekki gangi að þungatakmarkanir og einbreiðar brýr hamli atvinnustarfsemi á svæðinu. Formaður SSA kallar eftir að Austurlandi fái framlög frá ríkinu í takt við þau verðmæti sem skapast í landshlutanum.
Þetta var meðal þess sem fram kom á opnum fundi sem ráðherrann hélt á Egilsstöðum í síðustu viku. Hann boðaði þar að ríkisstjórnin myndi á næstu árum auka útgjöld til vegamála úr 0,6% af vergri landsframleiðslu í 1%.
Samkvæmt fjármálaáætlun er áætlað að auka framlag til viðhalds vega um 5,5 milljarða eða 47% frá því sem verið hefur. Eyjólfur sagði að árlega hefði verið veitt 10-13 milljörðum í viðhaldið en Vegagerðin teldi 20 milljarða þurfa til að halda innviðaskuld í jafnvægi.
90 milljónir af 3 milljörðum á Austurland
Fyrsta skrefið í því var þriggja milljarða aukafjárveiting á þessu ári sem Alþingi samþykkti í sumar. Á Austurlandi var stærsta framkvæmdin endurbætur á 5 km kafla í Berufirði auk bóta í Hamarsfirði og stuttum kafla á leiðinni upp Fell. Ráðherrann kom einnig inn á 5,5 km kafla á Breiðamerkursandi. Sá vegur tilheyrir austursvæði Vegagerðarinnar en ekki svæði Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi.
„Okkur brá í brún þegar ljóst varð að aðeins 90 milljónir skiluðu sér á starfssvæði SSA af þeim 280 milljónum sem skilgreindar voru á austursvæði,“ sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA. Hún sagði samgönguáætlun villandi byggða upp vegna þessa og nefndi sem dæmi að milljarðakostnaður vegna framkvæmda við Hornafjarðarfljót ætti heima í Suðurkjördæmi þótt það teldist á austursvæði í áætluninni.
Eyjólfur sagði að malbiksframkvæmdunum væri ekki lokið og sagði að í september stæði til að vinna í Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði. Hann sagði aukafjárveitinguna hafa breytt miklu um ástand vegakerfisins og alls staðar vakið ánægju.
„Brýr og vegir ráða ekki við þungann sem austfirskt samfélag byggir á“
Í ræðu sinni lagði Berglind Harpa út frá efnahagsgreiningu Austurlands sem gerð var árið 2023 og sýndi fram á að tæpur fjórðungur vöruútflutnings Íslands komi frá Austfjörðum, mest í formi áls og sjávarafurða. Þetta þýddi að þungaflutningar væru mikilvægir fyrir svæðið. „Vegakerfi Austurlands er á alvarlegum þröskuldi. Brýr og vegir ráða ekki við þungann sem samfélagið byggir á.“
Berglind Harpa nefndi að ekki væri lengur hægt að koma stórum tækjum landleiðina milli Austurlands og Norðurlands vegna þungatakmarkana á brúm yfir Jökulsá á Fjöllum. Á Suðurfjarðavegi eru einbreiðar og gamlar brýr til trafala. Keyra þarf þung tæki yfir Sléttuá í Reyðarfirði á vaði.
Vonar að vaðið á Sléttuá heyri brátt sögunni til
Berglind Harpa og fleiri fundargestir vísuðu til rannsóknar frá árinu 2012 sem sýndi að fyrir hverjar þrjár krónur sem greiddar væru í skatta úr Norðausturkjördæmi skilaði ein sér til baka. Í því samhengi var líka nefnt að við hækkun veiðigjalda í sumar hefði því verið heitið að gjaldið skilaði sér í formi bættrar þjónustu eða framkvæmda til þess svæðis þaðan sem það kæmi.
Eyjólfur vísaði til nýrrar samgönguáætlunar, sem hann leggur fram á haustþingi, um forgangsröðun framkvæmda. Hann sagðist vona að ekki þyrfti mikið lengur að fara á vaði yfir Sléttuá. Ástandið sem lýst væri gengi ekki þar sem jafn mikil verðmæti væru sköpuð. Hann sagði þó alls staðar kröfu um bætta innviði í vegasamgöngum og fleiri landssvæði teldu sig eiga rétt á hlutdeild í veiðigjaldinu.
Hann margítrekaði þá afstöðu að aukið fjármagn til samgöngumála væri forsendan fyrir úrbótum og sagðist telja samstöðu um það á Alþingi. Fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar væri að ná niður verðbólgu og vaxtastigum og boðaði aðgerðir til þess í haust. Þær yrðu þó ekki sársaukalausar.
Á fundinum var meðal annars spurt út í þann tíma sem tæki að undirbúa framkvæmdir og hvernig stytta mætti hann. Eyjólfur svaraði því með að tala um mat á umhverfisáhrifum en hann starfaði sem lögfræðingur hjá Skipulagsstofnun árin 2004-6. Hann sagðist „orðlaus“ yfir matinu og taldi að því væri ætlað að fjalla um „umtalsverð umhverfisáhrif, ekki öll umhverfisáhrif.“ Hann sagði „galin“ þau smáatriði sem skoðuð væru í ferlinu.
Loforð um Öxi
Berglind Harpa kom einnig inn á Axarveg, sagði hann hafa verið á dagskrá í 20 ár og vísaði til mikillar umferðar yfir hann, 500-800 bíla á dag yfir sumarið. „Það er þjóðhagslega brýnt og mikilvægt öryggismál að hefja þær framkvæmdir.“
Austurfrétt hefur áður greint frá því að í umræðum á fundinum hafi Eyjólfur vísað til þess að hann væri óbundinn af fyrirheitum forvera sinna í embætti um Fjarðarheiðargöng og að loforð um samgöngubætur við tilurð Múlaþings hefðu verið „munnleg en ekki skrifleg.“ Hann felldi Öxi í sama flokk. „Ég veit það voru einhver loforð um hana.“
Eyjólfur bætti við að hann liti svo á að á Austurlandi væru fjórar stórar framkvæmdir: Öxi, Fjarðagöng, Fjarðarheiðargöng og Suðurfjarðavegur.