Lagt til að Hamarsvirkjun fari í verndarflokk

Verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar, um verndun og nýtingu virkjunarkosta, leggur til að Hamarsvirkjun verði sett í verndarflokk. Áhrif hennar á ósnortin víðerni eru talin mikil og líkur á hatrömmum deilum ólíkra hagsmunaaðila um hana.

Drög að tillögum verkefnastjórnarinnar voru birt í samráðsgátt stjórnvalda fyrir viku. Vika er enn eftir af athugasemdir fresti þar en í kjölfarið hefst formlegt 12 vikna umsagnarferli. Fimm virkjunarkostir eru teknir saman og fer Hamarsvirkjun ein í verndarflokk. Hinir kostirnir: Bolaalda, Tröllárvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun eru í nýtingarflokki.

Hamarsvirkjun er tekin til umfjöllunar því Arctic Hydro hefur sótt um leyfi fyrir virkjun og gert viljayfirlýsingu við CIP, sem áformar vindorkuver í Fljótsdal og rafeldsneytisverksmiðju á Reyðarfirði, um viðskipti með rafmagn til að jafna út sveiflur í vindorkunni.

Gert hefur verið ráð fyrir að nýta vatn af vatnasviði Hamarsá, sem á upptök sín í smávötnum og tjörnum efst í Sviðinhornahraunum efst í Hamarsdal. Miðlað yrði í gegnum aðrennslisgögn úr tveimur lónum, í Hamarsvatni og inntakslóni í Vesturbót, í stöðvarhús sem yrði neðanjarðar. Með því fengist 60 MW virkjun sem myndi skila af sér 232 gígawattstundum á ári.

Veruleg neikvæð áhrif á ósnortin víðerni


Undir verkefnisstjórn starfa fjórir faghópar sem meta áhrif á náttúru, samfélag, hagkvæmni virkjunarkostanna og önnur líkleg áhrif eða hagsmuni. Samandregið fær hver þáttur einkunn frá einum og upp í fimm. Hamarsvirkjun fær lægstu einkunn, 1, fyrir aðra þætti en hagkvæmni þar sem hún fær 4.

Faghópur um náttúru og minjar telur virkjunina hafa afar neikvæð áhrif á verðmætar náttúrminjar á svæðinu í nágrenninu, bæði Hraunasvæðið og Lónsöræfi. Þannig séu Hraunin eitt af fáum ósnortnum svæðum Austurlands eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Virkjunin er talin mikið inngrip í samfellt víðernissvæði. Nefnd eru svæði svo sem Þrándarjökull, Geithellnadalur og að margir fallegir fossar séu í Hofsá. Það er talin hafa veruleg neikvæð áhrif á tækifæri í ferðamennsku, þótt flutningsleiðir kunni að opnast með vegagerð vegna virkjunarinnar.

Einnig er talið að virkjunin hefði neikvæð áhrif á beitarsvæði hreindýra. Við framkvæmdir myndu þau fara af svæðinu sem aftur leiddi til minni arðs fyrir bændur þar. Áhyggjur eru einnig af áhrifum breytinga í sérstaklega Hamarsánni á silungsveiði.

Líkur á að deilur kljúfi samfélagið


Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA) sinnti kom einnig að greiningu kosta fyrir verkefnisstjórnina, til dæmis um samfélagsleg áhrif. Í þeim kafla segir að rætt hafi verið við forsvarsmenn Múlaþings sem hafi ekki talið virkjunina umdeilda þótt hún hafi ekki verið mikið rædd til þessa. Hins vegar hafi brottfluttir og fólk búsett annars staðar gagnrýnt virkjunina opinberlega.

Viðbúið sé að þær raddir verði háværari er nær dregur framkvæmdum. Þá er tekið fram að örlað hafi á togstreitu innan sveitarstjórnar, svo sem í umræðum um vanhæfi sveitarstjórnarfulltrúa. Þess vegna ályktar RHA að þótt deilurnar séu ekki enn orðnar miklar sé líklegt að það breytist. Framkvæmdin hefði því neikvæð áhrif á samheldni samfélagsins.

Jákvæð áhrif á efnahag sveitarfélaga og orkuöryggi svæðisins


RHA mat líka þýðingu Hamarsvirkjunar fyrir orkuöryggi á Austurlandi. Þar er tekið fram að nýjar virkjanir geti hjálpað til við að sinna mikilli orkuþörf á svæðinu, svo sem til laxeldis og fiskimjölsvinnslu, en forgangsatriði sé sterkari byggðalína á suðurhluta svæðisins. Áhrif á orkuöryggið eru þó metin töluvert jákvæð.

Stofnunin reyndi að meta efnahagslegan ávinning virkjunarinnar. Þar er vafi, til dæmis um hvort starfsfólk við byggingu hennar, verði með lögheimili á svæðinu. Líklega yrðu þeir flestir þaðan, til dæmis yrðu erlendir starfsmenn í vinnubúðum með lögheimili í Múlaþingi.

Bein störf til framtíðar eru talin 6,4 eða 16 með afleiddum störfum. Aftur er óljóst hvar þau yrðu. RHA metur því að útsvarstekjur sveitarfélaga af störfunum yrðu 23,4 milljónir á ári. Fasteignaskattar eru taldir verða 27-33,6 milljónir á ári, miðað við núgildandi reglur.

Út frá bæði auknu rafmagni á svæðinu og tekjum af starfseminni eru áhrif virkjunarinnar á efnahag nærsamfélagsins talin nokkuð jákvæð, þar sem á fámennu svæði muni um hvert starf og viðbótartekjur. Þá telur RHA að með vegtengingum um erfið svæði væru áhrif á innviði nokkuð jákvæð.

Að endingu metur RHA áhrif utan nærsamfélags. Þar er bent á að Hamarsvirkjun sé meðal þeirra virkjunarkosta sem séu utan virka gosbeltisins. Með að dreifa raforkuöflun yfir landið sé dregið úr kerfisbundinni áhættu og raforkuöryggi landsins aukið.

Teikning af lóni í Hamarsvatni og næsta nágrenni. Mynd: Orskustofnun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.