Landa kolmunna á Vopnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. apr 2010 22:56 • Uppfært 08. jan 2016 19:21
Faxi RE og Lundey NS eru á leiðinni til Vopnafjarðar af kolmunnamiðunum suður af Færeyjum með fullfermi af kældum afla eða alls um 2.700 tonn.
Faxi og Lundey hafa síðustu dagana verið að veiðum suður af Færeyjum en Ingunn AK er í slipp þar sem tími var kominn á reglubundið eftirlit og viðhald.
,,Faxi er væntanlegur í kvöld en Lundey í fyrramálið,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarveiðisviðs HB Granda, á heimasíðu fyrirtækisins en að hans sögn er ,,heildarkolmunnaafli skipa HB Granda á vertíðinni nú orðinn rúmlega 14 þúsund tonn".
Einnig kemur fram á heimasíðunni að hratt hefur gengið á kolmunnakvóta HB Granda að undanförnu og nú eru aðeins óveidd um 3.000 tonn af kvóta ársins. Það samsvarar einni veiðiferð til viðbótar hjá tveimur af uppsjávarveiðiskipum félagsins.