Landrof ógnar bújörðum og náttúruminjum við Lagarfljót

lagarfljot_landbrot.jpg
Töluvert eða mikið landrof er á fjórðungi strandlengju Lagarfljóts. Verst er ástandið á þeim jörðum sem eru næst ósum fljótsins. Bújarðir og náttúruminjar eru í hættu. Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs krefur Landsvirkjun um mótvægisaðgerðir.

Þetta kemur fram í nýlegri skýrslum Landgræðslan vann fyrir Landsvirkjun og er hluti af vöktun á Lagarfljóti og Jökulsá í Fljótsdal eftir Kárahnjúkavirkjun. 

Síðasta sumar var landrofið mælt frá Fljótsdalsstöð og að ósum Lagarfljóts, alls 211,5 km. Lítilsháttar rof eða ekkert var á 161 km, talsvert landrof á 36,5 km og mikið landbrot á 14 km.

Mikið rof á 3/4 jarðarinnar 
 
Verst er ástandið á þeim jörðum sem liggja næst ósum Lagarfljóts, Húsey og Hóli og Hólshjáleigu. Samkvæmt skýrslunni er talið að töluvert eða mikið landbrot sé á 55% af strandlengju jarðarinnar. Í skýrslunni segir að „landbrot sé með allri strandlengju Húseyjar.“

Verst er ástandið í Hóli/Hólahjáleigu. Töluvert eða mikið landbrot er á 75% strandlengjunnar. Töluvert rof er á fleiri jörðum, til dæmis Rangá, Geirastöðum II, Ekru og Egilsstöðum.

Á Egilsstöðum hefur líka orðið landaukning þar sem efni hefur hlaðist upp. Heimamenn segja það hafa gerst eftir að Jökulsá á Dal var veitt yfir í Lagarfljót með virkjuninni.

Hækkun grunnvatns og meira vatn en reiknað var með 
 
Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs í síðustu viku var því beint til Landsvirkjunar að unnin yrði áætlun um úrbætur og mótvægisaðgerðir gegn landbroti á bökkum Lagarfljóts. „Horft verði heildstætt á stöðu grunnvatns, aukið vatnsmagn og meiri straumþunga í Lagarfljóti og samspil og áhrif þessara þátta á landbrot,“ segir í bókun bæjarstjórnar.

Að mati bæjaryfirvalda er breytingin meðal annars rakinn til hærri grunnvatnsstöðu í fljótinu enda sé meira vatn í fljótinu en gert var ráð fyrir í reiknilíkönum við hönnun Kárahnjúkavirkjunar. Bújarðir og náttúruminjasvæði sem liggi undir skemmdum eru sögð sérstakt áhyggjuefni.

Í skýrslu Landgræðslunnar er ekki lagt mat á rofhraða eða ástæður rofsins. Það var utan verkefnisins.

Yfirlit af landbroti við Lagarfljót. Mynd: Landgræðslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.