Landshitametið ætti að halda en staðbundin met í hættu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. júl 2025 13:33 • Uppfært 14. júl 2025 13:34
Sjálfvirk spá Veðurstofunnar spáir 28 stiga hita á Egilsstöðum á miðvikudag. Takmarkaðar líkur eru taldar á að hitametið, 30,5 gráður frá Teigarhorni í Berufirði 22. júní árið 1939, falli en það gæti staðið tæpt.
„Við spáum allt að 28 gráðu hita á Norðurlandi eystra en 26 gráðum á Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Við gerum spár fyrir landshlutana.
En hitinn getur orðið meiri á stöku stað þannig að við gætum séð staðbundin hitamet,“ segir Kristín Hermannsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Til viðbótar við spár veðurfræðinganna eru unnar sjálfvirkar tölvuspár, sem meðal annars má nálgast á vefsíðu Veðurstofunnar. Samkvæmt henni gæti hitinn farið í 27 gráður á Hallormsstað í dag og aftur þar, á Egilsstöðum og á Seyðisfirði á miðvikudag. „Það er hlýtt á öllu landinu og verður það alla vikuna,“ segir Kristín.
Segja má að fram til miðvikudags verði um 20 gráður hvar sem er á Austurlandi. Eftir miðvikudaginn kólnar aðeins, en áfram verður hlýtt og gott sumarverður.
Óvenjuleg austanátt
Það merkilega fyrir Austfirðinga er að vindur stendur mikið úr austri, sem yfirleitt þýðir kulda og vosbúð. Ástæðan fyrir hitanum er að til landsins leitar afar hlýtt loft úr hitabylgju sem verið hefur í Evrópu.
„Við Bretlandseyjar er mikil og stór lægð sem dælir til okkar austlægum áttum en á milli Jan Mayen og Lofoten hæð sem beinir loftinu til okkar. Við erum því í þessu hlýja lofti sem verið hefur yfir Evrópu. Austanáttin er óvenju róleg og þurr. Við sjáum þoku á einstaka stað í veðurathugunum en hún er mjög lítil.“