Landsnet varar við áhrifum veðurofsa á morgun
Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út víða um land og meðal annars fyrir Austurland í nótt og fram eftir degi á morgun. Landsnet hefur sent út viðvörun vegna þessa og vekur athygli á að líkur séu til að sviptivindar valdi áraun á flutningslínur rafmagns.
Spáð er sunnan stormi eða roki, 20 til 28 metrum á sekúndu á Austurlandi að Glettingi frá klukkan 8:00 í fyrramálið. Geta vindhviður allvíða farið yfir 35 metra á sekúndu. Stendur viðvörunin yfir fram til 14:30 á morgun. Er fólk hvatt til að ganga frá lausamunum og ferðaveður er sagt verða varasamt.
Í viðvörun Landsnets er sagt að veðrinum muni fylgja miklir sviptivindar sem valdi áraun á flutningslínur. Er hætta á því einkum sögð vera frá Hvalfirði, vestur um og norður í land en einnig allt austur á firði. Líkur eru taldar á niðurslætti eldinga en sú hætta er talin vera á landinu vestanverðu.