Landsnet varar við hættu á eldingum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. jún 2023 14:53 • Uppfært 16. jún 2023 14:54
Landsnet hefur gefið út viðvörun um að hætta sé á frekari truflunum í raforkukerfinu á Austurlandi í dag vegna eldingahættu. Veðurfræðingur skýrar vísbendingar sjást um forboða slíks veður yfir svæðinu.
„Við þekkjum að eldingar hérlendis verða gjarnan inn til fjalla á sumrin þegar landið hitnar í sól og háreistir skýjaklakkar myndast. Þá hitnar út frá þessum svörtu söndum sem eru fyrir norðan Vatnajökul eða í kringum Snæfell.
Það sem nú er að gerast er af öðrum toga. Þótt það sé bjart á morgnana er töluverður raki í loftinu, í um 2-6 km hæð. Til að ský myndist þarf þessi raki að verða fyrir upphitun.
Bæði þetta ofboðslega heita loft sem nú er yfir landinu og hitafallandi út við Austfirði, við sáum það var 7 stiga hiti á Dalatanga um hádegið og kuldi í sjónum, geta komið slíku ferli af stað.
Hitamunurinn ýtir undir þá hringrás eða lóðréttu hreyfingu sem þarf til að skúraklakkarnir myndist sem eldingar. Staðan leit vel út í morgun en um hádegið tóku að myndast skýjabólstrar sem geta verið fyrirboði þessa,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni.
Reikna hreyfingu loftmassans
Hann er ráðgjafi Landsnets sem laust fyrir klukkan tvö gaf út viðvörun um að líkur séu á niðurslætti eldinga, einkum á Héraði og í fjalllendi Austfjarða frá 14-20 í dag. Veðurstofa Íslands hefur ekki enn sent frá sér viðvörun enda misjafnar forsendur þar á milli. Þótt raflínur séu búnar eldingavörum þá geta afleiðingarnar samt orðið miklar ef elding hittir á viðkvæman blett.
Viðmið Veðurstofunnar á líkum á eldingaveðri er einnig hærra, þótt viðvörun Landsnets sé tilkomin þar sem líkur á veðurfyrirbrigðinu eru taldar töluvert meiri en minni. Enn eru þó ýmsir óvissuþættir í spilinu. Rætist spáin þannig að eldingar nái í gegn þarf að loka opnum sundlaugum í síðasta lagi þegar heyrist í fyrstu þrumu.
„Við reiknum veltimætti, getu loftsins til að hreyfast lóðrétt. Það segir til um líkurnar á eldingum. Oftast er það við núll en það hefur verið hátt í dag sem benti til þess að skýjabólstrar gætu myndast í þessum hita. Ef það er hátt og ekkert heftir það þá geta svona bólstrar byggst upp á örfáum klukkustundum.“
Einar bendir á að hæðin, sem hitað hefur sérstaklega Austurland í vikunni, valdi einnig hitabylgju í Norðurlöndunum og Bretlandi. Henni hefur fylgt eldingaveður sem í gær kveikti skógarelda í Noregi. Í morgun sáust eldingar yfir hafinu suður af Öræfajökli. „Það er vísbending um óstöðugleikann.“
Mestar líkur á Héraði og Vopnafirði
Aðspurður um hvar séu mestar líkur á eldingum svarar Einar að það sé frá Möðrudalsfjallgarði austur yfir Austfjarðafjallgarð. Það er þá svæðið frá Fljótsdalshéraði og norður á Vopnafjörð og frekar inn til landsins en út á annesjum. Upp úr klukkan tvö var komin fram úrkoma við Möðrudalsfjallgarðinn. Ekki er heldur hægt að útiloka svæði á Suðaustur- eða Norðausturlandi.
Einar segir erfitt að sjá fyrir hvað gerist. „Aðalfyrirboðinn er að sjá þessa skýjabólstra. Síðan gæti aðeins byrjað að gjóla.“
Og þótt spáin rætist ekki í dag þá er hættan ekki liðin hjá. „Veltigildið er hátt á morgun á svipuðum slóðum, þó kannski heldur norðar. Ef það losnar ekki um orkuna með þessum hætti þá bíður hún.“
Skýjabólstrar yfir Fljótsdal í dag.