Landstólpi tekur við umboði AB varahluta
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. maí 2025 11:22 • Uppfært 14. maí 2025 11:33
Landstólpi tekur um næstu mánaðamót við umboði AB varahluta á Egilsstöðum. Verslunarstjóri Landstólpa segir spennandi tíma framundan með auknu vöruúrvali og umsvifum.
Austurfrétt greindi frá því í síðasta mánuði að skipulagsbreytingar væru í farvatninu hjá AB varahlutum á Egilsstöðum. Í gær var síðan skrifað undir samning um að Landstólpi sem er með verslun í sambyggðum húsum að Lyngási 11 og 13, taki við AB umboðinu.
Landstólpi hefur verið með verslun í tveimur ystu bilunum að Lyngási 11 og lager í því þriðja. Við breytingarnar stækkar verslunin um eitt bil en það fjórða verður lager. Ekki liggur fyrir ákvörðun um nýtingu núverandi verslunar AB að Lyngási 13.
Kristjana Jónsdóttir, verslunarstjóri Landstólpa segir að allar þær vörur sem AB hefur verið með verði áfram í boði hjá Landstólpa. Afgreiðslan verður sameiginleg og sinnt af starfsmönnum Landstólpa sem í dag eru fjórir talsins. „Við erum með mannskap sem þekkir vel til þessa geira,“ segir Kristjana.
Framkvæmdir eru hafnar við breytingar á verslunarhúsnæðinu. Formleg opnun verður laugardaginn 31. maí með sýningum frá helstu birgjum verslananna.
„Við þurfum að læra margt en það er margt í úrvali AB sem á góða samleið með þeim rekstri sem við höfum verið með. Þess vegna erum við mjög spennt fyrir þessu. Við bætum við víðtæka þjónustu okkar við bændur, verktaka og bíleigendur.“