Skip to main content

Langfæstar gistinætur á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jan 2024 14:07Uppfært 03. jan 2024 12:09

Gistinætur á hótelum á Austurlandi í nóvember síðastliðnum voru þær langfæstu á landinu. Fjöldi þeirra náði aðeins þriðjungi gistinátta á Vesturlandi og Vestfjörðum á sama tíma, og voru aðeins 1,3 prósent gistinátta á landinu öllu. Sé horft til hefðbundinnar skiptingar landssvæða þá eru hótelherbergi á Austurlandi fæst svo töluverðu nemur.


Gistinóttum á hótelum á Austurlandi fjölgaði þó um sjö prósent milli ára miðað við nóvember síðastliðinn. Gistinætur þá voru 4.550 talsins en í nóvember árið 2022 voru þær 4.241 talsins. Fjöldi gistinátta á Austurlandi náði aðeins þriðjungi af fjölda gistinátta á Vesturlandi og Vestfjörðum á sama tíma.

Þetta má sjá út úr nýjum gögnum Hagstofu Íslands. Ekki er tilgreint hvernig gistinætur í fjórðungnum skiptast milli Íslendinga og erlendra gesta en sú skipting á landsvísu var þannig að 80 prósent gistinátta eru vegna erlendra ferðamanna. Gera má ráð fyrir að hlutfallið á Austurlandi sé lítt frábrugðið landsmeðaltali.

Hlutfall gistinátta á hótelum á Austurlandi er það lang minnsta sé horft á hlutfall af heild á öllum landsvæðum. Alls voru gistinætur á hótelum á landinu öllu á tímabilinu tæplega 361 þúsund talsins. Í tölum Hagstofunnar eru Vesturland og Vestfirðir talin saman og voru næst fæstar gistinætur á því svæði, rúmlega þrettán þúsund talsins, eða um tvöfalt fleiri en á Austurlandi. Langflestar voru gistinæturnar vitanlega á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta lága hlutfall skýrist væntanlega að hluta af því að fjöldi hótelherbergja er minnstur á Austurlandi af öllum landsvæðum. Hótelherbergi á Austurlandi voru í nóvember síðastliðnum 373 talsins, um helmingi færri en hótelherbergi á Vesturlandi og Vestfjörðum samanlagt.

Framboð á hótelherbergjum dróst lítillega saman á Austurlandi í nóvember síðastliðnum miðað við sama mánuð árið 2022, eða um tvö prósent. Herbergjanýting jókst að sama skapi lítillega, um 3 prósent. Herbergjanýting á hótelum á Austurlandi var engu að síður sú lakasta á landinu öllu í nóvember, aðeins 24,3 prósent. Það er örlitlu minna en herbergja nýtingin á Norðurlandi.

Ekki liggur fyrir áætlaður fjöldi gistinátta í heimagistingu að svo komnu máli.