Langmest af makrílnum veiðst innan íslensku lögsögunnar

Búið er að veiða rúman helming þess makrílkvóta sem til ráðstöfunar er í ár. Mest af þeim afla hefur fengist innan íslensku lögsögunnar. Á Fáskrúðsfirði kom Hoffellið til hafnar með um 800 tonn í gær.

„Þessi afli fékkst austur af landinu. Þetta er mjög stór og góður fiskur,“ segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Samkvæmt yfirliti Fiskistofu er búið að veiða 77 þúsund tonn af rúmlega 127 þúsund tonna afla, eða um 60%. Íslensku skipin stefnu í byrjun vertíðar sum austur í Smugu en þá fannst makríll innan þeirrar íslensku.

Þar voru skipin út júlí en fóru í byrjun þessa mánaðar að leita meira fyrir sér í Smugunni. Þau eru nú aftur komin yfir í þá íslensku.

„Makrílveiðin hefur verið upp og ofan. Langmest hefur verið veitt innan íslensku lögsögunnar. Það hefur stundum dregið úr henni þá og þá hafa íslensku skipin fært sig yfir í Smuguna og leitað þar en oftast fært sig fljótlega inn í íslensku landhelgina aftur,“ segir Garðar.

Íslensk útgerðarfélög hafa lagt áherslu á að veiða makrílinn innan íslensku lögsöguna þar sem þau telja það bæta samningsstöðu landsins. Makríllinn er deilistofn sem þjóðirnar á Norður-Atlantshafi hafa ekki samið um þótt Íslendingar hafi veitt fiskinn innan sinnar lögsögu frá árinu 2008.

Frá Loðnuvinnslunni er það annars að frétta að Ljósafell landaði 55 tonnum af blönduðum afla á mánudag. Þetta var fyrsti túr skipsins eftir að hafa verið í slipp í Færeyjum. Ráðgert er að skipið haldi aftur til veiða í kvöld. „Aðalverkefnið í slippnum var að skipta um skrúfublöð. Skipið er orðið 51 árs en er í ágætu standi enda vel við haldið,“ segir Garðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.