Langvinn Covid-áhrif enn ekki mælanleg austanlands
„Það má kannski svara þessu á þann hátt að langvinnar afleiðingar Covid-veikinda hafa enn ekki komið fram að ráði og ástæðan kannski fyrst og fremst sú að slík tilfelli voru ekki sérstaklega skráð í upphafi og það er einungis nú nokkru síðar sem vakandi auga hefur verið haft með slíku,“ segir Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA.)
Tiltölulega lítið hefur farið fyrir fréttum hérlendis af langvinnu Covid eins og það er kallað þegar einstaklingur sem sýkist af þessum skæða vírus veikist undantekningarlítið bæði illa og er annaðhvort mjög lengi að ná sér ellegar nær sér ekki aftur að fullu.
Afleiðingar langdregins Covid eru afar einstaklingsbundnar en algengar kvartanir snúa að minnisleysi, síþreytu, nálardofa, andnauð og jafnvel hjartsláttartruflanir þegar verst lætur. Áhrifin geta varað mánuðum saman og jafnvel lengur með tilheyrandi hörmungum fyrir þolendur.
Pétur segir þó engan vafa leika á að langdregið Covid sé sannarlega alvarlegt vandamál og telur ekki loku fyrir það skotið að slík tilfelli skjóti upp kollinum hér austanlands áður en langt um líður en fjöldi sýktra einstaklinga á landsvísu er enn í hæstu hæðum. Til marks um það nægir að nefna að rúmlega 35 þúsund manns hafa mælst sýktir síðustu fjórtán daga og ástandið vegna þessa enn krítískt hjá flestum heilbrigðistofnunum landsins.
Pétur segir það sama upp á teningnum á HSA og víðar. „Staðan er mjög slæm. Ég gæti sagt þér að við vitum ekki starfsmannastöðuna nema klukkustund fram í tímann en þá væri ég að ýkja. Ég gæti líka sagt þér að við þekktum stöðuna sólarhring fram í tímann en þá væri ég að draga úr. Það má ekkert út af bera.“