Launakostnaður jókst mikið við sameiningu Múlaþings
Launakostnaður fyrsta heila starfsár sameinaðs sveitarfélags Múlaþings 2021 reyndist vera 850 milljónum króna hærri en heildarlaunakostnaður þeirra fjögurra sveitarfélaga sem stóðu að sameiningunni síðasta heila starfsár þeirra árið 2019.
Staðfestur ársreikningur Múlaþings var lagður fram fyrir skömmu en þar kemur fram að kostnaðarliðurinn laun og launatengd gjöld þetta fyrsta heila starfsár sveitarfélagsins nam rúmum fjórum milljörðum eða 4.073.386 sé aðeins litið til A-hluta en 4.2 milljarðar króna samanlagt hjá A- og B-hluta.
Til samanburðar var heildar launakostnaður þeirra fjögurra sveitarfélaga sem sameinuðust undir hatti Múlaþings 2020: Djúpavogs- og Borgarfjarðarhreppa, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar rúmlega 3,2 milljarðar alls; 3.229.636 í A-hluta 2019 og tæplega 3,9 milljarðar króna samanlagt hjá A- og B-hlutum.
Kostnaðarliðurinn laun og launatengd gjöld jókst því á þessum tíma um 843 milljónir króna í A-hlutanum en 866 milljónir í A- og B- hlutum samanlagt. Rekstur Múlaþings 2021 því 26% dýrari en rekstur hinna fjögurra gömlu sveitarfélaga 2019.
Ýmsar skýringar
Gauti Jóhannesson, fráfarandi forseti sveitarstjórnar Múlaþings, segir margar skýringar á þessum launahækkunum. Launavísitalan almennt hafi hækkað töluvert á þessu tímabili og þá hafi lífskjarasamningarnir og stytting vinnuvikunnar haft töluverðan kostnaðarauka í för með sér fyrir sveitarfélögin í landinu.
„Í fjárhagsáætlun vegna ársins 2021 var gert ráð fyrir að launakostnaður hækkaði á milli ára vegna kjarasamninga auk fyrirhugaðrar fjölgunar stöðugilda í sameinuðu sveitarfélagi. Fjölgun stöðugilda má annars vegar rekja til yfirtöku sveitarfélagsins á verkefnum er áður voru vistuð í byggðasamlögum, svo sem skólaþjónustu og brunavörnum, og hins vegar vegna nýrra starfa í stjórnsýslu er áformuð voru í aðdraganda sameiningar og eru fjármögnuð með sérstökum framlögum frá Jöfnunarsjóði er tengjast sameiningu sveitarfélaganna.“
Gauti bendir jafnframt á að undanfarin ár hafi laun og tengd gjöld hækkað verulega umfram hækkanir á tekjum sveitarfélaga eins og Samband íslenskra sveitarfélaga hafi nýverið bent á.
„Fyrir 10 árum síðan, árið 2012, námu laun og tengd gjöld réttum helmingi af tekjum hvers sveitarfélags. Samkvæmt fjárhagsáætlunum fyrir 2022 er gert ráð fyrir að hlutfallið verði 57%, en í útkomuspá fyrir 2021 er reiknað með 58,4%. Það er því margs að gæta í þessu sambandi enda sveitarfélögin dugleg við að minna á ýmislegt sem betur mætti fara varaðandi tekjuskiptingu ríkis- og sveitarfélaga.“
Annað sem Gauti segir vert að hafa hugfast er að þegar lengra líður á sé gert ráð fyrir ýmsum jákvæðum samlegðaráhrifum af sameiningunni sem ekki séu enn komin fram. Þá skipti einnig máli að í aðdraganda sameiningarinnar hafi verið lögð megináhersla á bætta þjónustu við íbúa og eflingu stjórnsýslunnar. Það hafi óhjákvæmilega í för með sér aukinn kostnað enda hafi gömlu sveitarfélögin haldið að sér höndum í þeim málum lengi.