Leggja fram matsáætlun vegna umhverfismats Gilsárvirkjunar

Í kjölfar þess að Skipulagsstofun úrskurðaði í byrjun árs að bygging Gilsárvirkjunar í Eiðaþinghá skyldi háð formlegu mati á umhverfisáhrifum hefur framkvæmdaraðilinn nú skilað inn áætlun um hvernig standa eigi að málum.

Það er Orkusalan, dótturfyrirtæki RARIK, sem vill reisa 6,7 MW vatnsaflsvirkjun ofarlega í Gilsá. Framkvæmdin mun fela í sér byggingu stíflu og stöðvarhúss, lagningu slóða, sex kílómetra aðrennslispípu auk safnlagna. Svæðið sem um ræðir er óbyggt og skilgreint sem landbúnaðarsvæði en helstu ástæður þess að Skipulagsstofun úrskurðaði að mat á umhverfisáhrifum væri nauðsynlegt tengjast miklum rennslisbreytingum Gilsárinnar þegar virkjunin verður upp komin. Þær breytingar geta haft áhrif á vatnafar og vatnalíf.

Í matsáætlun Orkusölunnar, sem hægt er að kynna sér í þaula á vef Skipulagsstofnunar, er gerð nákvæmari grein fyrir framkvæmdinni, framkvæmda- og athafnasvæði hennar auk umhverfisþátta sem hugsanlega verða fyrir áhrifum. Áætlar Orkusalan að Skipulagsstofnun ljúki yfirlegu sinni með vorinu og umhverfisrannsóknir og vettvangsvinna hefjast strax í kjölfarið. Vinna við sjálfa umhverfismatsskýrsluna fari fram í haust og næsta vetur og verði opinberuð á næsta ári.

Líkan af inntaksstíflu og lóni Gilsárvirkjunar eins og það gæti hugsanlega litið út á endanum en hönnunin þó ekki endanleg. Virkjunin verður lítt sjáanleg þó fallhæð hennar nái 277 metra hæð. Mynd EFLA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.