Leggja til að griðland hreindýra við Snæfell verði afnumið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. feb 2022 16:54 • Uppfært 18. feb 2022 09:33
Svæðisráð Austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs hefur lagt til að ákvæði um veiðigriðland við Snæfell og seinkun veiða á Snæfellsöræfum verði felld út úr stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Veiðar gætu verið heimilaðar þar í sumar.
Griðlandinu var komið á með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, eftir samþykkt í þáverandi svæðisráði Austursvæðis. Ákvæðið var ekki óumdeilt á sínum tíma en var staðfest með þeim fyrirvara að það yrði síðar skoðað í ljósi reynslunnar.
„Aðgengi að svæðinu hafði þá breyst mikið skömmu áður og óljóst hve margt ferðafólki yrði á svæðinu á veiðitímanum,“ segir Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, verkefnastjóri hjá Vatnajökulsþjóðgarði.
Boltinn rúllar af stað í haust
Síðasta haust sendi Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum (FLH) erindi til svæðisráðsins með ósk um að griðlandið yrði afnumið. Það olli erfiðleikum við veiðar síðasta sumar, dýrin héldu sig á svæðinu meðal annars vegna veðurs.
Svæðisráðið tók strax jákvætt í erindi félagsins um að heimila veiðar á svæðinu í kringum Snæfell. Í hönd fór viðtækt samráð við hagsmunaðila svo sem rannsóknastofnanir, samtök veiðifólks og útivistarfólks.
Fylgjast vel með áhrifunum
Í byrjun mánaðarins samþykkti ráðið samhljóða að leggja til að fella burtu ákvæði um veiðigriðlandið og seinkun veiða. Ráðið kom aftur saman í morgun og samþykkti þá drög að verkefnislýsingu fyrir tillögu að breytingu á stjórnun- og verndaráætlun þjóðgarðsins, ásamt drögum að áætlun um vöktun, samráð og samstarf vegna breytinganna.
„Verkefnislýsingin lýsir áætluðum verkferli og felur meðal annars í sér fleiri samtöl við hagaðila. Hún byggir á gögnum sem hefur verið safnað og samtölum. Það er samstaða um að gera breytingar en jafnframt að vel verður fylgst með áhrifum þeirra og reynt að draga úr neikvæðum áhrifum, komi þau upp,“ útskýrir Jóhanna.
Stjórn þjóðgarðsins á enn eftir að staðfesta tillögu svæðisráðsins, en hún fundar í næstu viku. Eftir það fer málið í almenna kynningu. Svæðisráðið tekur síðan við athugasemdum og vinnur endanlega tillögu. Stefnt er að því að málinu verði lokið áður en veiðitímabil hreindýra hefst um miðjan júlí.
Víðtækt samráð
Í bókun svæðisráðsins frá í morgun er framgangi málsins fagnað. Jóhanna segir að vinnan síðustu mánuði hafi gengið hratt og vel. „Málið hefur verið í forgangi innan þjóðgarðsins og samtalið við alla hlutaðeigandi hefur verið vandað.
Það skiptir máli að vinna málið með hagsmunaðilum á svæðinu því það eru margir sem nýta það til útivistar eða atvinnu, bæði beinnar og afleiddar. Við vitum að öll dýrin í skóginum verða að vanda sig ef þau ætla að vera vinir og það hefur náðst gott samtal.
Við höfum fengið umsagnir Umhverfisstofnunar, Náttúrustofu Austurlands, Náttúrufræðistofnunar og Hreindýraráðs, átt náið samtal við FLH, Skotvís, Skaust svo við gleymum ekki Náttúruverndarsamtökum Austurlands. Eins hefur verið rætt við ferðaþjónustuaðila. Þessu samtali þarf síðan að halda áfram,“ segir Jóhanna Katrín.