Skip to main content

Leigan byrjar í 3% af raforkuverði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2022 14:27Uppfært 06. apr 2022 14:28

Leigugjald fyrir land undir Geitdalsárvirkjun í Skriðdal byrjar í 3% en hækkar upp í 10% á leigutímanum. Landið er allt í opinberri eigu.


Þetta kemur fram í samningi Arctic Hydro, sem hefur rannsóknaleyfi á svæðinu, við íslenska ríkið sem undirritaður var seint í nóvember í fyrra.

Virkjunarsvæðið nær yfir tvær jarðir, annars vegar Þingmúla sem er í eigu ríkisins, hins vegar Geitdalsafréttar, sem Múlaþing á. Tekið skal fram að ríkið hefur í gegnum Óbyggðanefnd lýst kröfum í afréttina.

Arctic Hydro hefur frest til undirbúnings og rannsókna fram til ársins 2028 og einkarétt til virkjunar á þeim tíma. Leigusamningurinn sjálfur gildir síðan í 50 ár frá gangsetningu virkjunar.

Leigugreiðslur fyrstu fimm árin nema 3% af brúttósöluverði raforku. Hlutfallið hækkar síðan um eitt prósentustig á fimm ára fresti, þar til það nær 10% eða fjörtíu árum eftir gangsetningu virkjunarinnar. Þetta er heildargreiðsla fyrir leiguna. Í samningnum eru síðan ákvæði um breytingar á markaði eða aðstæðum.

Arctic Hydro skuldbindur sig til að selja rafmagnið á eðlilegu markaðsvirði. Því ber meðal annars að tilkynna ríkinu ef það selur raforku samkvæmt langtímasamningi, til fimm ára eða lengur eða ef selt er til notanda í eigu Arctic Hydro.

Í inngangi samningsins segir að það sé sameiginlegt markmið samningsaðila að kanna möguleika þess að virkja Geitdalsá á sem hagkvæmastan og umhverfisvænstan hátt. Stefna skuli að því að leyfa Arctic Hydro að hefja virkjunarframkvæmdir leiði athuganir fyrirtækisins það í ljós að virkjunin sé hagkvæmt. Fyrirtækið er skuldbundið til að gera fullt umhverfismat á sinn kostnað.