Skip to main content

Leikskólagjöld lækka á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2022 09:59Uppfært 05. maí 2022 10:05

Leikskólagjöld lækka einna mest milli ára í Fjarðabyggð og Múlaþingi á sama tíma og þau hækka í flestum öðrum sveitarfélögum.


Þetta kemur fram í nýrri samantekt verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands. Verð lækka í þremur sveitarfélögum í úttektinni: Múlaþingi, Fjarðabyggð og Mosfellsbæ og standa í stað í einu. ASÍ kannar leikskólagjöld í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.

Í Fjarðabyggð lækka almenn gjöld, fyrir 8 tíma með fæði, um 2%. Í Múlaþingi er lækkunin 6,1% en tekið er fram að þar sé átt við leikskólann Bjarkatún, sem er á Djúpavogi. Sé horft til níu tíma leikskóladvalar er lækkunin 1,3% í Fjarðabyggð og 4,3% í Bjarkatúni.

Almenn gjöld fyrir eitt barn í átta tíma í Fjarðabyggð eru 33.424 krónur. Það eru þriðju lægstu gjöldin í könnuninni. Lægst eru þau í Reykjavík 28.371 króna og síðan í Mosfellsbæ. Á þeim stöðum er miðað við að taka börn 18 mánaða inn á leikskóla en tólf mánaða í Fjarðabyggð. Múlaþing er níunda í röðinni, þar er kostnaðurinn 40.874 krónur en hæst er gjaldið í Grindavík 42.262 krónur.

Staðan breytist ef systkini bætist við. Fjarðabyggð er fjórða ódýrust með 56.160 krónur fyrir tvö börn en Reykjavík ódýrust sem fyrr með um 40.000 krónur. Múlaþing er þriðja dýrast með 70.282 krónur.

Sé horft til níu tíma vistunar fyrir eitt barn er Múlaþing dýrast yfir landið, kostar 51.414 krónur en Fjarðbyggð er þriðja ódýrust með 40.590 krónur. Bætist systkini við er Múlaþing næst dýrast með 87.116 krónur en Fjarðabyggð þriðja ódýrast með 63.265 krónur.

Systkinaafslátturinn virðist drjúgur í Fjarðabyggð. Leikskólagjöld fyrir fjögur börn er læst í úttektinni í Fjarðabyggð, 72.785 krónur fyrir níu tíma og 62.036 fyrir átta tíma.

Mynd: Hlynur Sveinsson