Leita að nýju tjaldsvæði fyrir sumarið í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. maí 2025 15:07 • Uppfært 20. maí 2025 15:08
Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð leita að hentugu svæði undir tjaldsvæði í Neskaupstað í sumar. Vegna framkvæmda við snjóflóðavarnir þurfti að leggja núverandi svæði niður fyrr en áætlað var. Á Eskifirði þarf einnig að finna nýjan rekstraraðila.
Norðfirðingar hafa spurt út í áform með tjaldsvæðin síðustu daga, en gestir hafa elt merkingar upp á núverandi tjaldsvæði og jafnvel dvalið þar þótt það eigi að teljast lokað.
Framkvæmdir gengið hratt við snjóflóðavarnir
Í nokkurn tíma hefur verið ljóst að tjaldsvæðið, upp við snjóflóðavarnagarðana undir Drangagili, myndi víkja vegna nýrra varnargarða sem verið er að byggja þar fyrir utan. Nýtt tjaldsvæði hefur því verið skipulagt við varnargarðana innst í bænum.
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, segir að upphaflegar áætlanir hafi gert ráð fyrir að hægt yrði að nýta tjaldsvæðið áfram í sumar. Mildur vetur hafi hins vegar orðið til þess að framkvæmdir við varnargarðana hafa gengið hraðar en reiknað var með og þess vegna er strax búið að taka tjaldsvæðið undir vinnusvæði.
Aðspurð svarar hún að eðlilega spyrji bæjarbúar hver staðan sé en á sama tíma sé fullur skilningur fyrir því að varnargarðarnir séu í forgangi.
Vonast eftir skýrari mynd fyrir helgi
Jóna Árný segir tiltölulega stutt síðan ljóst varð að ekki yrði hægt að nýta svæðið í sumar og nú sé verið að skoða lausnir í stöðunni. Við hafi bæst að hitabylgja í maí hafi skapað áhuga fólks fyrr en síðustu ár að fara af stað með hjól- og fellihýsi.
Hún bendir á að sveitarfélagið þurfi að semja við aðra aðila um svæði undir tjaldsvæði í sumar. Þær viðræður séu í gangi en taki sinn tíma. Vonast er til að staðan verði orðin skýrari í lok vikunnar.
Rekstraraðila leitað á Eskifirði
En það er víðar óvissa um tjaldsvæðamál en í Neskaupstað. Í fyrra var rekstur tjaldsvæðanna frá Reyðarfirði til Breiðdalsvíkur boðinn út og gerður eins árs samningur um rekstur tjaldsvæðanna á Eskifirði og í Neskaupstað. Sá samningur rann út.
Til stóð að þessi tvö tjaldsvæði fylgdust áfram að í sumar. Það flækti því málin þegar ljóst varð að færa þyrfti tjaldsvæðið í Neskaupstað strax. Jóna Árný segir að nú sé útlit fyrir að klára þurfi samninga um rekstur á Eskifirði og í Neskaupstað aðskilið og unnið sé að því.