Leita eftir hugmyndum íbúa um nýtt deiliskipulag Útkaupstaðar Eskifjarðar

Ákveðið hefur verið að framlengja frest sem íbúar hafa til að skila hugmyndum sínum um nýtt deiliskipulag Útkaupstaðarins á Eskifirði. Miklar breytingar eru framundan á svæðinu þar sem byrjað er að rífa niður mannvirki sem áður tilheyrðu Eskju.

„Þetta er mikilvægt svæði í bænum. Þess vegna vildum við kalla eftir hugmyndum íbúa áður en farið yrði í hið lögformlega skipulagsferli,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og íbúi á Eskifirði.

Upphaflega stóð til að halda íbúafund, sem vera átti í mars, en af honum hefur ekkert orðið vegna samkomutakmarkana. Þess vegna var farin þessi leið að óska eftir að íbúar sendi inn tillögur sínar, sem að sögn Eydísar hefur ekki verið gert með þessu hætti áður í Fjarðabyggð.

Tillögurnar fara næst fyrir eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd, þar sem Eydís er formaður. Hún segir nefndina ekki hafa neinar fyrirfram mótaðar hugmyndir um svæðið. Í auglýsingu segir þó að á svæðinu sé hægt að gera ráð fyrir útisvæði, torgi, verslun og þjónustu ásamt íbúabyggð.

Skipti á lóðum við Eskju

Svæðið sem um ræðir afmarkast af svæðinu neðan Túngötu, milli Grjótár og Útkaupstaðarbrautar og til sjávar milli Strandgötu 42 og 44 og er hluti af miðbæ Eskifjarðar. Reiknað er með að núverandi húsnæði Strandgötu 38-42, áður frystihús, frystigeymslu og verbúð á vegum Hraðfrystihúss Eskifjarðar, nú Eskju, víki. Framkvæmdir eru hafnar en verbúðin var rifin í síðasta mánuði. Eskja sér um niðurrifið og frágang lóðanna. Nokkuð er síðan hætt var að nota þessi hús, utan frystigeymslunnar.

Sveitarfélagið eignaðist svæðið á síðasta ári þegar undirritaður var samningur um lóðaskipti við Eskju, sem flutt hefur starfsemi sína á nýtt svæði sem byggt hefur verið upp í botni fjarðarins. Um leið eignaðist Eskja fyrrum húsnæði hjúkrunarheimilisins Hulduhlíðar að Bleiksárhlíð 56 en Fjarðabyggð tók yfir Strandgötu 39 sem áður hýsti skrifstofur Eskju. Gert er ráð fyrir að skrifstofubyggingin verði áfram á sínum stað. Þessar miklu breytingar leiddu til þess að ákveðið var að gera nýtt deiliskipulag.

Á svæðinu er einnig Gamla búð sem hýsir Sjóminjasafn Austurlands. Húsið var upphaflega byggt árið 1816 og er því eitt af þeim elstu í bænum. Hugmyndir hafa verið að færa það utar í bæinn og byggja þar upp sérstakt safnasvæði, en engin ákvörðun liggur fyrir um það.

Bæjarbúar áhugasamir

Eydís segir talsverðan áhuga á skipulaginu meðal Eskfirðinga, en frestur til að skila inn tillögum er til 15. desember. „Ég veit að það eru komnar inn hugmyndir en við vitum líka af fleirum sem hafa verið að velta hlutunum fyrir sér og langar til að senda inn tillögur. Þess vegna framlengdum við frestinn. Mín tilfinning er að það sé talsverður áhugi á þessu, enda er það mikilvægt og jákvætt að fá innlegg frá íbúum í þessa vinnu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.