Leita leiða til að bæta almenningssamgöngur í Fjarðabyggð
Fimm manna starfshópur skal næstu vikur leita leiða til að bæta leiðakerfi almenningssamgangna í Fjarðabyggð en núverandi samningur um aksturinn rennur út um áramótin.
Fjarðabyggð hóf sérstakt tilraunaverkefni með almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins árið 2021 og þar byggt á skýrslu sem verkfræðistofan EFLA hafði unnið og bauð það kerfi upp á tvær akstursleiðir. Annars vegar milli Neskaupstaðar og Reyðarfjarðar og hins vegar á milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar. Það kerfi hefur tekið breytingum í takt við þarfir notenda.
Tilraunaverkefnið sem átti upphaflega að standa út 2022 var framlengt út yfirstandandi ár en meta skyldi stöðuna og byggja framtíðar almenningssamgöngukerfi áður en núgildandi samningur rynni út. Heildarkostnaður Fjarðabyggðar vegna þessa kerfis stefnir í að vera um 80 milljónir króna á þessu ári en reynsla notenda almennt sögð góð.
Það kemur í hlut þeirra Þórðar Vilbergs Guðmundssonar, Snorra Styrkársonar, Magnúsar Árna Gunnarssonar, Haraldar Líndal Haraldssonar og Rúnars Inga Hjartarsonar að gera gott betra. Þar skal horft sérstaklega til góðs samráðs við íþróttafélögin og skólana á svæðinu auk þess að samþætta kerfið eins og hægt er við leiðakerfi Vegagerðarinnar.
Stefnan er að starfshópurinn ljúki starfi sínu á þremur til fjórum vikum svo útboðsferli fyrir næstu þrjú árin geti hafist í næsta mánuði og gengið verði til samninga í nóvember. Akstur samkvæmt nýju kerfi hefjist strax um áramótin.