Leita leiða til að bæta líðan barna í grunnskólum Fjarðabyggðar
Líðan alltof margra barna og unglinga í grunnskólum Fjarðabyggðar er ekki nógu góð samkvæmt könnunum og hafa fræðsluyfirvöld í sveitarfélaginu leitað ýmissa leiða til að ráða þar bót á.
Niðurstöður könnunar er nefnist Skólapúlsinn voru nýverið kynntar skólayfirvöldum og stjórn fræðslumála í Fjarðabyggð en Skólapúlsinn er könnun sem tekin er reglulega meðal stórs hluta nemenda í grunnskólum sveitarfélagsins. Síðasta könnun frá haustinu leiddi í ljós að töluvert margir nemendur segjast upplifa vanlíðan af einu eða öðru taginu í skólanum en eldri kannanir hafa mikið til leitt það sama í ljós.
Skólapúlskönnunin er spurningakönnun þar sem nemendur 6. til 10. bekkjar grunnskólanna eru spurðir út í fjölmargt það er tengist námi þeirra eins og virkni í náminu, líðan og heilsu og skóla og bekkjaranda svo fátt sé nefnt. Birgir Jónsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks og fyrrum skólastjóri Eskifjarðarskóla, tók stund á síðasta bæjarstjórnarfundi til að fara yfir viðbrögð sveitarfélagsins við miður góðum niðurstöðunum.
„Niðurstöðurnar úr þessari könnun eru um margt áhyggjuefni. Hlutir eins og líðan, sjálfsálit og fleira hjá krökkunum er ekki nægilega gott samkvæmt þessum könnunum. Við höfum síðastliðið ár verið að skoða leiðir til að efla gæðastarf og innra mat í skólunum. Hluti af því er að við erum að innleiða núna kerfi sem heitir Bravo lesson þar sem að skólarnir skrá aðgerðaráætlanir sínar í kjölfar kannana á borð við þessarar. Þá verður mjög skýrt fyrir skólana og okkur sem að þessum málum standa hvaða aðgerðum er verið að vinna að og hvernig sú vinna gengur. Það einn liðurinn í að takast á við svona niðurstöður og gera hlutina betri. Annað sem mig langar að nefna er að hér er verið að innleiða nokkuð sem kallast nemendaþing eða barnaþing. Við erum þar að fá aðila til að kynna og kenna ákveðna hugmyndafræði í skólunum okkar með það fyrir augum að þetta verði tæki sem verður notað í öllum skólunum okkar. Þar eru nemendur og foreldrar fengnir að borðinu til að ræða málin og finna lausnir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt tæki til að takast á við svona niðurstöður hvort sem þær eru góðar eða slæmar. Svo erum við líka með forvarnarteymi sem tekur saman niðurstöður allra kannana sem gerðar eru á öllum skólastigum og vinnur heilstætt með hlutina. Ég held að allir þessi hlutir séu mikilvægir til að við gerum sífellt betur í þessu öllu.“
Þemadagar í Nesskóla fyrir nokkru. Kannanir utanaðkomandi aðila leiða aftur og aftur í ljós töluverða vanlíðan margra skólabarna í Fjarðabyggð. Mynd Facebook/Nesskóli