Leita leiða til að tryggja rekstur Bustarfells til langframa
Rekstur eins merkasta safns og býlis Austurlands, Bustarfells í Vopnafirði, er í nokkurri óvissu komandi sumar en hin síðari ár hefur safnstjórinn sjálfur þurft að taka af sínum eigin launum til að greiða fyrir eitt og annað nauðsynlegt á staðnum.
Safnstjórinn, Eyþór Bragi Bragason, fundaði með sveitarstjórn Vopnafjarðar fyrir skömmu í því skyni að leita leiða til að tryggja rekstrargrundvöll safnsins en fyrir ókunnuga er vel varðveittur torfbærinn eitt stórt safn um liðna tíð og tíma. Reksturinn verið þungur um nokkurra ára skeið og ekki eingöngu sökum takmarkaðs fjármagns sem safnið hefur árlega yfir að ráða heldur og vegna þess að sífellt erfiðara er að fá fólk þar til starfa.
Í samtali við Austurfrétt segir Eyþór Bragi fundinn með sveitarstjórn bara þann fyrsta af tveimur en Vopnafjarðarhreppur hefur lengi vel stutt við reksturinn með framlögum. Það hafi sannarlega komið í góðar þarfir en þörf sé á að hugsa reksturinn til lengri tíma en eitt og eitt sumar. Með öðrum orðum að finna leið til að tryggja nægt fjármagn fram í tímann.
„Það var ákveðið á þessum fyrri fundi að reyna að leita uppi fleiri aðila sem gætu komið að því að tryggja með okkur reksturinn og það svo skoðað á næsta fundi hvort einhverjir slíkir aðilar finnast. Þetta er búið að vera þungt nú um nokkurra ára skeið og við nánast alfarið að treysta á styrki ár hvert. Það þýðir að við getum ekkert skipulagt lengur en ár í senn en það er þörf á að geta litið lengra fram í tímann upp á viðhald og annað slíkt sem gæti verið kostnaðarsamara en eingöngu reksturinn yfir sumartímann.“
Eyþór Bragi viðurkennir hreinskilningslega að staðan í sumar sé óljós á þessu stigi. „Auðvitað er vonin að hafa áfram opið eins og fyrri sumur og sjálfur myndi ég nú aldrei láta það gerast að staðnum yrði alveg lokað. En það gæti orðið niðurstaðan að skerða þjónustuna eða stytta opnunartímann. Það gengur ekki til lengdar að ég sem safnstjóri þurfi að ganga á mín eigin laun til að redda ýmsu sem ekki getur beðið. Að auki er vinnutíminn langur og nokkur þörf á því að annar aðili geti aðstoðað mig eða leyst mig af annars lagið. Sá aðili, ef hann finnst, þarf auðvitað að búa við eitthvað starfsöryggi.“