Leita nýs safnstjóra Bustarfells
Ráða skal nýjan safnstjóra Minjasafnsins á Bustarfelli í Vopnafirði fyrir komandi sumarvertíð en aðrar sérstakar breytingar á safninu eftir að hreppurinn tók yfir daglegan rekstur eru ekki fyrirhugaðar að svo stöddu.
Samkomulag þess efnis að Vopnafjarðarhreppur tæki yfir rekstur þessa einstaka minjasafns úr höndum fjölskyldunnar á Bustarfelli var samþykkt fyrr í vetur af hálfu sveitarstjórnar enda var eftir slíku samkomulagi leitað af hálfu fjölskyldunnar á staðnum sem bæði hafa verið rekstraraðilar og staðarhaldarar á Bustarfelli langt aftur í tímann.
Þannig mun Björg Einarsdóttir sem verið hefur staðarhaldari um 40 ára skeið láta af því starfi og við tekur sonur hennar, Eyþór Bragi. Staðarhaldarar eru að því leyti ólíkir rekstraraðilum að þeir fyrrnefndu vinna á vegum Þjóðminjasafns Íslands sem á og viðheldur gamla torfbænum.
Að sögn Valdimars O. Hermannssonar, sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps, eru frekari breytingar á rekstri eða starfsemi safnsins ekki fyrirhugaðar að svo stöddu. Hins vegar verði tekið samtal við nýjan safnstjóra ef heppilegur aðili finnst í það starf og ekki útilokað að áherslubreytingar verði gerðar þegar lengra verður um liðið.