Leita til íbúa í Fjarðabyggð við myndun nýrrar menningarstefnu
Fyrirhugað er að halda tvo íbúafundi í Fjarðabyggð á næstunni þar sem meðal annars verður leitað álits íbúa sveitarfélagsins á nýrri menningarmálastefnu sem nú er unnið að.
Sú menningarstefna sem unnið hefur verið með í sveitarfélaginu undanfarin ár er komin á tíma og datt í raun úr gildi 2021 að sögn Jóhanns Ágústs Jóhannssonar, forstöðumanns Menningarstofu Fjarðabyggðar. Nú skal forma nýja stefnu til næstu fimm eða tíu ára og gjarnan taka mið af óskum og ábendingum íbúa.
„Við ætlum okkur að halda tvö sérstök menningarmót í þessum tilgangi. Annars vegar í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði og hins vegar í Skrúð á Fáskrúðsfirði. Þar er hugmyndin að allir sem að menningarmálum koma hjá sveitarfélaginu taki samtal við íbúa og safni þar saman þeim hugmyndum sem fram koma. Það segir sig sjálft að menningarstefna verður að taka mið af þeim breytingum sem hafa orðið á samfélaginu hér og slík stefna skal taka mið af öllum aldurshópum, jaðarhópum og ekki síst innflytjendum. Með öðrum orðum stefna sem nær til allra sem hér búa.“
Jóhann nefnir líka að í þessu sambandi verði einnig horft til Múlaþings og ekki síst Austurbrúar en þar innandyra er verið að vinna menningarstefnu fyrir fjórðunginn í heild sinni.
Mikil gróska er í menningarlífinu í Fjarðabyggð og svo skal vera áfram næstu árin. Annað menningarmótið er fyrirhugað í Tónlistarmiðstöð Austurlands á næstunni.