Skip to main content

Leita til ÍSOR til að meta borholur við Djúpavog

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. maí 2024 15:44Uppfært 22. maí 2024 15:48

Hitaveita Egilsstaða og Fella, HEF-veitur, hyggst leita til fyrirtækisins Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, til að fá úr því skorið hvers vegna heitavatnsleit við Djúpavog í vetur gekk ekki sem skyldi.

Töluverðar rannsóknir af hálfu HEF-veitna, áður en borinn Trölli var fenginn til að bora við Djúpavog í vetur eftir heitu vatni um tveggja mánaða skeið, gáfu til kynna sterkar líkur á nægu nægilega heitu vatni til að geta sinnt heitavatnsþörf íbúa og fyrirtækja á Djúpavogi til framtíðar.

Þrátt fyrir að borað hefði verið niður á rúmlega 800 metra dýpi á þeim stað sem fýsilegastur þótti fannst hvorki nægilega heitt vatn né í nægjanlegu magni og borun því hætt í byrjun apríl til að endurmeta stöðuna.

Úr hefur orðið að HEF-veitur hyggjast fá sérstakan mælingarbíl Íslenskra orkurannsókna til að koma austur og mynda og mæla þær holur sem þegar hafa verið boraðar á Djúpavogssvæðinu. Sá mælingarbíll er útbúinn til ýmis konar mælinga um einkenni og afkastagetu borhola og þær mælingar geta hugsanlega varpað ljósi á hvers vegna ekki var komið niður í það vatnsmagn né hitastig sem vonir stóðu til þegar borun hófst við Djúpavog í febrúar síðastliðnum.

Í ljósi niðurstaðna ÍSOR er hugsanlega að HEF-veitur kalli til bortæki sem þegar er til staðar í fjórðungnum í minniháttar borverkefni eða til að staðsetja næstu tilraunaholu.

Stærsti jarðhitabor landsins, Trölli, boraði niður á 800 metra dýpi við Djúpavog í vetur en árangurinn af því lítill sem enginn. Mynd HEF