Leyfi veitt til virkjunarrannsókna í Köldukvísl þrátt fyrir mótmæli HEF
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. ágú 2025 08:22 • Uppfært 31. júl 2025 22:23
Umhverfis- og orkustofnun hefur veitt Orkusölunni ehf. leyfi til rannsókna vegna fyrirhugaðrar vatnsaflsvirkjunar í Köldukvísl á Eyvindarárdal. HEF veitur lögðust gegn leyfinu þar sem við ána er vatnsból Egilsstaða.
Orkusalan áformar að byggja í ánni 2 MW virkjun. Rannsóknaleyfi var áður í gildi á árunum 2018-23 og á þeim tíma voru gerðar rennslismælingar.
Leyfið nú gildir til ársins 2030 en samkvæmt umsókn áætlar Orkusalan á þeim tíma að fara í frekari rennslismælingar, rannsaka gróðurfar, skrá minjar og kanna jarðfræði.
Í umsagnarferli til Orkustofnunar mótmæltu HEF veitur leyfisveitingunni því við ána er vatnsból Egilsstaða. Í umsögn HEF segir að vatnsbólið, sem tekið var í notkun árið 2009, sé það besta sem í boði sé á svæðinu. Það hafi bylt vatnsgæðum á Egilsstöðum og víðar því í miklum þurrkum sé vatn sótt þangað og keyrt á sveitabæi á Héraði.
HEF mótmælir því bæði rannsóknum og byggingu virkjunar á þeim forsendum að rask við Köldukvísl kunni annars vegar að ógna vatnsöryggi á Héraði, hins vegar skerða vatnsgæði.
Í svari Orkusölunnar segir að rannsóknunum sé meðal annars ætlað að varpa ljósi á hvort virkjun hefði áhrif á neysluvatnið. Af hálfu Umhverfis- og orkustofnunar er bent á að rannsóknaleyfið heimili hvorki nýtingu né veiti forgang að henni. Hins vegar er sú kvöð að landeigandi þarf að veita leyfishafa óhindraðan aðgang að eignarlandi eftir að rannsóknaleyfi liggur fyrir.
Í um umsögn Hafrannsóknastofnunar var einnig bent á að rannsaka þyrfti Eyvindará frá upphafi til enda því þar sem Kaldakvísl fellur í hana kunni það að hafa áhrif á hana.