Skip to main content

Líf færst í nýja viðbyggingu Múlans í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. maí 2025 09:44Uppfært 07. maí 2025 09:49

Mikið líf hefur nú færst í neðri hæð nýrrar viðbyggingar samvinnuhússins Múlans í Neskaupstað en fjölmargir nýir leigjendur tóku við lyklavöldum að skrifstofum sínum um mánaðarmótin. Efri hæðin verður tekin í notkun eftir tvær vikur eða svo.

Verktakinn Nestak er að leggja lokahönd á efri hæð viðbyggingarinnar og þar eins og á neðri hæðinni er stærstur hluti rýmisins þegar leigður út til lengri tíma til hinna ýmsu fyrirtækja og stofnana að sögn Guðmundar Rafnkels Gíslasonar, framkvæmdastjóra hússins.

Meðal þeirra sem hafa komið sér fyrir í nýja húsinu nú þegar eru verkalýðsfélagið AFL, byggingaraðilinn sjálfur Nestak, lífeyrissjóðurinn Stapi, Hafrannsóknarstofnun, Matvælastofnun auk Fiskistofu. Þrír aðilar flytja svo inn á efri hæðina eftir fáeina daga en þar um að ræða tæknifyrirtækin Origo og Pearl auk starfsmanna Eyglóarverkefnisins. Þar að auki mun Landsbankinn fljótlega taka yfir það pláss sem Stapi lífeyrissjóður nýtti áður í eldra húsinu.

Aðspurður um hvort húsnæðið í heild sé þá fullleigt segir Guðmundur að enn séu lausar skrifstofur í nýbyggingunni auk tveggja einstaklingsrýma í eldra húsnæðinu. Það fyrir utan að þar er líka hægt að leigja vinnuaðstöðu í opnu rými.

Þessum stóra áfanga stendur til að fagna með pompi og prakt á opnu húsi yfir sjómannadagshelgina í byrjun næsta mánaðar.