Líkur á snjó til fjalla í nótt og ausandi rigningu víðast hvar á morgun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. jún 2025 11:43 • Uppfært 02. jún 2025 11:43
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir fyrir veðurspásvæðin Austurland að Glettingi og Austfirði í nótt og fyrramálið. Gular viðvaranir verða bæði á undan og eftir. Veðurfræðingur telur að áhrifin verði minni en af kuldakasti fyrir sléttu ári þar sem óveðrið nú standi skemur.
Viðvaranir taka gildi fyrir Austurland strax klukkan 14 í dag. Fyrst er gul viðvörun til klukkan þrjú í nótt. Spáð er 8-13 m/s og snjókomu til fjalla með hálku sem færist neðar þegar þegar á líður kvöld. Sambærileg viðvörun gildir fyrir Austfirði frá klukkan 18 í kvöld til miðnættis.
Appelsínugular viðvaranir vegna slyddu í nótt
Appelsínugulu viðvaranirnar taka gildi strax eftir þær gulu og vara til hádegis á morgun. Spáð er norðan 15-20 m/s með snjókomu eða skafrenningi, einkum til fjalla. Sérstaklega er varað við hviðum allt að 30 m/s á morgun.
„Það er þegar farið að kólna og spáð vaxandi norðanátt. Á fjallvegum á Norðurlandi er komin slydda og hún færist austar. Seint í kvöld og nótt fer snjólínan niður í 200-300 metra, jafnvel neðar þannig að slydda gæti fallið í byggð. Til dæmis er líklegt að það gráni alla leið niður á Jökuldal.
Á fjörðunum verður væntanlega autt en það rignir. Firðirnir sunnan Reyðarfjarðar eru betur varðir gagnvart úrkomu en Seyðisfjörður, Mjóifjörður og Borgarfjörður eru opnari og þar verður snjólínan neðar.
Aðalvindstrengurinn sleppur Austfjörðum, þótt 12-15 m/s meðalvindhraði þýði hviður upp á um eða 20 m/s á völdum stöðum. Meðan mesta hvassviðrið gengur yfir er rétt að sleppa að vera með létta flutningabíla, hestakerrur eða hjólhýsi á ferð milli fjarða því það myndast alltaf strengir. Þröskuldurinn vegna foktjóns hjá tryggingum er ekki hár,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Ausandi rigning á morgun
Frá hádegi til miðnættis á morgun verður í gildi gul viðvörun. Spáð er talsverðri eða mikilli rigningu sem skapi hættu á flóðum í ám og lækjum og skriðuföllum eða grjóthruni.
„Í fyrramálið verður vindur meira af norðaustan. Þá koma ný skil upp að landinu og þau verða 2-3 gráðum hlýrri heldur en í nótt. Hitanum fylgir meira vatn. Um hádegi verður komin ausandi rigning sem nær allt upp í fjallstoppa og fellur því ofan í snjó eða krapa.Þetta skapar hættu á vatnavöxtum. Lækjarfarvegir fyllst og það reynir á ræsi í vegum.“
Það versta afstaðið á miðvikudagsmorgun
Spáð er leiðinda veðri fram á fimmtudag og köldu fram að helgi. Óli Þór telur þó ekki líkur á að lengja þurfi viðvaranir. „Ef hægt er þá er betra að vera ekki á ferðinni yfir fjallvegi aðfaranótt miðvikudags, ef það skyldi vera krapi.
Við gerum annars ráð fyrir að flestir vegir verði orðnir færir um hádegi á morgun. Það góða fyrir Austfirðinga er að veðrið stoppar stutt í slyddu eða snjókomu, samanborið við Norðurland. Á miðvikudag snýst vindur aftur til norðurs, jafnvel norðvesturs. Þá verður úrkoma lítil sem engin á fjörðunum. Það gæti fallið smá slydda á þá fjallvegi sem eru hæstir, eins og Vatnsskarð og Fjarðarheiði.“
Óttast ekki sömu afföll og í fyrra
Þann 3. – 7. júní í fyrra gekk líka öflugt kuldakast yfir Austfirði og olli meðal annars miklu tjóni á varpi fugla en líka fjárskaða. Óli Þór telur minni hættu í hretinu núna, einkum fyrir fuglana.
„Versti kuldakaflinn núna er styttri, hann gengur yfir í kvöld, nótt og fyrramálið. Maí í fyrra var ekkert sérstakur meðan hann hefur verið einstaklega hlýr núna. Snjóinn tekur upp hraðar því frost er farið úr jörðu. Varp byrjaði líka fyrr núna. Helst hefur maður áhyggjur af lömbum sem búið er að sleppa því þau hafa ekki nógu mikla ull til að verjast vosbúðinni.“
Frá júníhretinu í fyrra.