LÍSA skal auðvelda erlendum íbúum að læra íslensku
Austurbrú hefur um skeið verið að þróa sérstakt kennslutæki í formi smáforrits sem vonir standa til að auðveldi erlendum íbúum að læra íslensku auk þess sem forritið mun nýtast til kennslu í grunn- og framhaldsskólum.
„LÍSA - lærum íslensku“ mun kennslutækið heita en gegnum það eiga erlendir nemendur að geta lært grunnatriði íslensku og um megineinkenni íslensks samfélags hvar og hvenær sem er. Að auki mun forritið bjóða upp á kortagrunn og boðið hagnýtar upplýsingar um íslenskt samfélag á öðrum helstu tungumálum til að auðvelda alla aðlögun.
Að sögn Tinnu K. Halldórsdóttur, verkefnisstjóra hjá Austurbrú, kallar verkefni sem þetta á mikla samvinnu margra aðila en Austurbrú er til dæmis í samstarfi við máltæknilausnafyrirtækið Miðeind og hugbúnaðarfyrirtækið Stokk, símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og danska tungumálaskólann Studieskolen.
„Við gerum okkur vonir um að fyrsta útgáfan verði prufukeyrð meðal erlendra starfsmanna Búlandstinds á Djúpavogi með haustinu og þaðan fáum við vonandi athugasemdir og tillögur um hvað má betur fara. Þetta er langt og dýrt verkefni eins og gefur að skilja og við þurfum eflaust að sækja okkur frekari styrki til að ljúka verkinu en við ráðgerum að kennsluforritið verði tilbúið haust 2025.“
Nú er helsta vinnan að þróa tækni og aðferðir til að taka upp framburð orða en leita skal til mismunandi fólks af erlendum uppruna til að safna röddum til að bera fram þau íslensku orð sem áhersla verður lögð á að notendur læri.
Íslenskt mál er erfitt mörgum úr öðrum samfélögum og að sama skapi hafa margir innflytjendur kvartað yfir að erfitt geti verið að fá kennslu í tungumálinu. LÍSA gæti bætt út því. Mynd Austurbrú