Skip to main content

Lítið náttúrugripasafn gæti orðið að veruleika á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. feb 2024 15:46Uppfært 15. feb 2024 15:57

Sú var tíð að í skólahúsnæði Djúpavogs var ágætur vísir að litlu náttúrugripasafni þar sem berja mátti augum ýmsar fuglategundir á svæðinu og jafnvel egg þeirra líka. Undanfarin ár hefur sá safnakostur verið hulin sjónum fólks í kössum í dimmri geymslu en einn heimamaður vill nú breyta því.

Sá einstaklingur er Stefán Skapti Steinólfsson sem hefur farið þess á leit við heimastjórn bæjarins að fá aðgang að safngripunum til að setja upp á eða við heimili sitt að Hvarfi. Heimastjórnin tók erindinu vel en engar ákvarðanir verið teknar.

Aðspurður út í áhuga hans á þessu máli segir Stefán mikla synd að ágætt, forvitnilegt safn muna sé nú geymt á afviknum stað þar sem enginn fær að njóta eða fræðast um og hann vill breyta því.

„Það eru margir sem muna eftir þessu litla en skemmtilega safni sem vakti alltaf áhuga og spenning hjá börnunum í skólanum sérstaklega. Þessi safnkostur hefur mér vitandi verið ofan í kössum í slökkvistöðinni í mörg ár og enginn hefur nein not af því fyrirkomulagi. Ég er með ágætt pláss fyrir þessa muni sjálfur. Það getur bæði verið í hluti þess húsnæðis sem ég bý í en hér fyrir utan húsið er líka vel einangraður gámur sem gæti líka virkað vel undir safnið. Hugmyndin kannski ekki að freista ferðafólks sérstaklega heldur koma þessu ágæta safni fyrir augu fólks á ný og þá er ég að hugsa um börnin sem hafa sérstaklega gaman af því að sjá svona gripi sem vekur gjarnan áhuga þeirra að fræðast um náttúruna og dýralífið.“