Skip to main content

Lítið sem ekkert af fólki í ólöglegu húsnæði á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. maí 2023 14:05Uppfært 05. maí 2023 14:08

Þó vitað sé af örfáum íbúðum hér austanlands sem ekki standast lögformlegar kröfur til íbúðarhúsnæðis er það vandamál hvorki stórt né útbreitt að mati slökkviliðsstjóra á svæðinu.

Að fólk geri sér húsnæði á stöðum sem ekki standast kröfur er ekki nýtt fyrirbæri og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Í fjölda ára hefur slökkvilið á þeim slóðum varað við fjölgun fólks sem tekur nánast hvað sem er til að fá þak yfir höfuðið og ekki síður húseigendum sem slíkt leigja. Afleiðingar þess á köflum skelfilegar eins og þegar þrír létu lífið í eldsvoða á Bræðraborgarstíg fyrir þremur árum.

Eitt slíkt mál komst í hámæli fyrir skömmu þegar fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði um fjögurra manna fjölskyldu sem gerði sér að góðu að búa í gömlum kolakjallara en þá umfjöllun má sjá hér.

Austurfrétt forvitnaðist um stöðu þessara mála hér austanlands og hún er mjög góð að mati slökkviliðsstjóra Brunavarna Austurlands og Slökkviliðs Fjarðabyggðar. Þar kemur fámennið í mörgum kjörnum Austurlands sér vel því það kvisast fljótt út ef einstaklingar eða fjölskylda koma sér fyrir á miður góðum stað.

Bæði Haraldur Geir Eðvaldsson, hjá Brunavörnum Austurlands, og Sigurjón Valmundsson hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar eru sammála um að þetta vandamál sé vart til staðar hér þó sannarlega hafi verið húsnæðisskortur víðast hvar á svæðinu í langan tíma.

„Við vitum af stöku íbúðum á okkar svæði sem eru svona óleyfisíbúðir en þær ekki margar,“ segir Haraldur Geir. „Eftirlit með slíku er erfitt því okkur er ekki heimilt að fara inn í íbúðarhúsnæði. Svo lengi sem skráðar eru íbúðir í einhverju húsnæði þá megum við ekki rannsaka og taka stöðuna gagnvart brunavörnum. Þess utan eru ekki öll hús skoðunarskyld og til dæmis eru ekki öll atvinnuhúsnæði sem falla undir það.“

Haraldur segir vitneskju um að fólk sofi í iðnaðarhúsnæði á þeirra starfssvæði en oft er slíkt bara tímabundið og það er almennt erfitt að átta sig á umfangi þessa hverju sinni. Bæði Haraldur og Sigurjón í Fjarðabyggð eru sammála um að vandamálið sé mun minna á svo fámennum stöðum sem flestir kjarnar Austurlands eru. Nánd fólks sé það mikið meiri en á stærri stöðum að eftir því er tekið ef einhver eða einhverjir komi sér miður góðu þaki yfir höfuðið.