Lítið um strokulaxa í austfirskum ám

Fáir strokulaxar úr fiskeldi hafa fundist í austfirskum ám. Vísbendingar eru um talsverða erfðablöndun í stofninum í Breiðdalsá milli villts lax og eldislax en óvíst hvernig hún er tilkomin. Stór strok úr eldi á Vestfjörðum virðist ekki hafa áhrif enn eystra.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr nýrri samantektarskýrslu um vöktun vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna fyrir árið 2023 sem Hafrannsóknastofnun sendi frá sér í gær. Þar eru teknar saman helstu niðurstöður rannsókna og mælinga á útbreiðslu strokulaxa og blöndun þeirra við villtan lax síðustu ár.

Lítið er um strokulaxa, eða nýlega erfðablöndun, í austfirskum ám. Hluti þeirrar skýringar er að laxar hafa ekki sloppið úr fiskeldi á Austfjörðum síðan Fiskeldi Austfjarða, nú Kaldvík, hóf eldi þar árið 2012. Hins vegar slapp regnbogasilungur frá fyrirtækinu veturinn 2015-16.

Fiskar víða frá Patreksfirði


Stærsta sleppingin á síðasta ári var úr Patreksfirði í september þegar 3.500 laxar struku úr stöð þar. Þeir náðu að dreifa töluvert úr sér, allt suður á Faxaflóa og austur í Fnjóská. Það er þó ekkert miðað við þegar 80 þúsund fiskar sluppu úr kvíum á Arnarfirði í október 2022.

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri sviðsstjóri Ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknastofnunar, segir að ekki séu enn komin fram mikil áhrif þessara sleppinga á villta stofninn. Það sé þó ekki útilokað að það gerist. „Sleppingin í Patreksfirði var ekki stór en það vildi svo illa að talsverður hluti fiskanna var kynþroska og náttúran dró þá áfram.

Við höfum ekki orðið mikið vör við fiskana sem sluppu úr Arnarfirði. Náttúruvalið virðist hafa séð um þá. Við lærðum af reynslunni þannig að reglum var breytt, svo sem um ljósastýringu til að koma í veg fyrir að fiskarnir verði kynþroska í kvíunum. Þeir fiskar sem sleppa áður en þeir verða kynþroska virðast deyja í hafinu.

Þegar laxeldi byrjaði á ný hér við Ísland var gert áhættumat erfðablöndunar og sett upp erfðavöktunarverkefni. Þessar rannsóknir eru hluti af því. Þessi skýrsla endurspeglar þó ekki endilega stöðuna á hverjum tíma því mælingarnar eru á eftir atburðunum. Ef fiskur sleppur úr eldi þá geta liðið 1-2 ár þar til ganga upp í á til að hrygna. Síðan á eftir að greina þá. Á Austfjörðum var líka mjög lítið eldi í kjölfar ISA-veirunnar árið 2022.“

Einn strokulax á Austurlandi 2023


Notast er við nokkrar aðferðir til að greina fiskana. Í nokkrum ám eru komnir teljarar með myndavélum. Selá og Vesturdalsá í Vopnafirði eru með slíkum búnaði. Áform voru um að setja slíkan búnað í Breiðdalsá en bæði mikið vatn í ánni og örar sveiflur á þess þýddu að uppsetningin hefði verið dýr og því fallið frá henni að sinni. Eldislaxar komu ekki fram á myndum úr ánum í Vopnafirði. Þeir fundust hins vegar í ám annars staðar á landinu.

Í öðru lagi hafa veiðimenn verið hvattir til að skila inn sýnum af löxum sem grunur er um að séu úr eldi. Á landvísu bárust inn 460 sýni eftir þessum leiðum og reyndust 440 þeirra eldislaxar. Af þeim var einn lax af Austfjörðum, úr Stöðvará í Stöðvarfirði. Uppruni þess lax er óþekktur.

Stakir blendingar veikja ekki stofnana


Í þriðja lagi kom út í fyrra út stór skýrsla um erfðablöndun milli villts lax og strokulax. Áhyggjur eru af blönduninni þar sem villtur lax er talinn eiga minni möguleika á að komast af í náttúrunni. Því gæti það veikt villta laxinn ef gen eldislax blandast inn í hann. Hver fiskur aðlagast þeirri á sem hann elst upp í og gengur úr henni út í sjó og aftur til baka á ævi sinni.

Í nýju skýrslunni er farið yfir upplýsingar sem komnar voru fram í fyrra og bætt við gögnum sem borist hafa síðan. Þar koma meðal annars fram nýir blendingar í Selá og Norðfjarðará, einn á hvorum stað. Áður hafði fundist blendingur í Norðfjarðará og tveir í Hofsá í Vopnafirði auk fisks með óþekktan uppruna í Selá. Það þýðir að í Norðfjarðará eru staðfest tvö blendingstilfelli í átta sýnum, meðan sýnin úr Selá eru 104 og 55 úr Hofsá.

Þessar tölur verður að skoða í samhengi. „Þótt við sjáum einn og einn fisk úr eldi þá þýðir það ekki mikla hættu ef villti stofninn er í góðu ásigkomulagi. Náttúruvalið sér þá um þá. Hins vegar ef stofn í á er lítill eða veikur getur innblöndun orðið hraðari. Það þarf heldur ekki að vera að gen úr eldislaxi veiki viðnámsþrótt villtra stofna. Við eigum enn eftir að læra meira um það,“ útskýrir Guðni.

Óútskýrð erfðablöndun í Breiðdalsá


Í Breiðdalsá sem og Jökulsá á Dal og hliðará hennar Laxá er hins vegar um að ræða talsverða erfðablöndun. Í Breiðdalsá eru 14 af 73 sýni með blöndun eða 19%, auk þess sem upprunni fjögurra er óþekktur. Í Jökulsá er hlutfallið 16/75 eða 21% auk sjö óþekktra sýna og 19/54 eða 35% auk þriggja óþekktra í Laxá.

Ekki hefur tekist að rekja þá erfðablöndun, en ljóst er að hún er tilkomin fyrir árið 2017 þegar vöktun var aukin og trúlega áður en núverandi eldisskeið á Austfjörðum hófst árið 2012. Mögulega er erfðaefnið komið lengra að. Nokkrar tilgátur eru fyrir hendi sem reynt er að rannsaka frekar.

„Við skiljum ekki þessar erfðaniðurstöður úr Breiðdalsá og erum að skoða þær. Þeir blendingar eða eldisseiði sem hér hafa fundist hefur yfirleitt alltaf verið hægt að rekja til tilkynntra óhappa.
Þangað virðist hafa borist erfðaefni annars staðar en úr ánni. Árið 2003 sluppu laxar úr eldi á Norðfirði og sumir þeirra veiddust í Breiðdalsá. Þetta kann að vera fiskur úr eldi í Færeyjum eða Noregi, úr öðru eldi hérlendis eða jafnvel villtur fiskur frá Noregi.

Ísland er eyja og laxar frá öðrum löndum lifa í sjónum í kringum okkur. Eldislaxinn sem við sjáum er ekki endilega úr næstu kví. Hérlendis hafa veiðst eldisfiskar frá Noregi og trúlega Færeyjum. Í Mjólká í Arnarfirði veiddist villtur lax frá Skotlandi.“

Skrá verður uppruna fiska í ræktun


Guðni segir að ef erfðaefnið sé úr íslensku fiskeldi þá eigi að vera hægt að finna það því skylda sé að taka erfðaefni úr foreldrafiskum og geyma. Slík skylda hefur ekki verið hendi fyrir hendi þegar verið er að rækta villta stofna, eins og gert hefur verið í Breiðdalsá. Slíkt ákvæði átti að vera í nýju frumvarpi matvælaráðherra um lagareldi sem Alþingi náði ekki að afgreiða í vetur.

„Þar kunnum við að hafa sofið á verðinum. Við ræktun eru teknir fiskar úr viðkomandi á og ræktað út frá þeim. Þetta ákvæði átti að vera til að koma í veg fyrir að fiskar úr öðrum áttum yrðu ekki teknir í misgripum, því slíkt getur haft margfeldisáhrif,“ útskýrir Guðni.

Trúlega útskýrir erfðablöndunin í Breiðdalsá blöndunina í Jöklu. Þar var í raun ekki til villtur stofn áður en byrjað var að rækta hana upp eftir að jökulvatnið hvarf úr henni með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. „Það stóð til að taka undaneldisfiska úr öðrum ám. Ræktunin fór öll fram í góðri trú en við þurfum að skoða betur hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis. Við erum með sýni í greiningu.“

Eins bendir Guðni á að villti stofninn í Breiðdalsá sé ekki stór. Fáir blendingar geti því fljótt myndað hærra hlutfall þar en annars staðar.

Veiðimenn hvattir til að láta vita af eldislöxum


Hafrannsóknastofnun hefur beint tilmælum til veiðimanna um að láta vita ef þeir verði varir við strokulaxa. Íslenska laxeldið notast við lax af norskum uppruna sem er töluvert frábrugðin þeim íslenska. Búnar hafa verið til leiðbeiningar um hvernig megi greina megi á milli þeirra. „Við erum að reyna að kortleggja ástandið og læra hvað gerist á hverjum tíma. Þess vegna þurfa veiðimenn alltaf að vera vakandi,“ segir Guðni

Hann bætir við að þarna sé sameiginlegt hagsmunamál á ferðinni. „Það fylgir mikil ábyrgð fiskeldinu. Framleiðslufyrirtækin vilja ekki missa fiska úr kvíunum því það er tap. Það skiptir máli að sýna árvekni og fylgja viðurkenndum aðferðum og reglum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.