Lítil bryggja bætist við minningarreitinn í Neskaupstað
Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur lagt fram beiðni til hafnarstjórnar Fjarðabyggðar um leyfi til að bæta lítilli sex metra langri bryggju við minningarreit fyrirtækisins um þá sem látist hafa við störf hjá fyrirtækinu.
Minningarreiturinn var formlega vígður í fyrra. Hann stendur á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóðunum í desember árið 1974. Fyrr í sumar bætti Rótarýklúbbur Neskaupstaðar einnig við steinbekk í litlu rjóðri fyrir ofan reitinn sjálfan og þar sjá menn fyrir sér að svæðið allt grói með tíð og tíma og verði fjölsóttur áningarstaður bæjarbúa og gesta.
Hafnarstjórn, fyrir sitt leyti, tók vel í ósk Síldarvinnslunnar með þeim fyrirvara að öll leyfi fengjust og gætt yrði sérstaklega að skerða ekki grjótvörn við framkvæmdirnar. Þær munu, ef allt gengur, hefjast á næsta ári.
Minningarreiturinn mun stækka lítillega ef áform um litla bryggju verða að veruleika í Neskaustað. Mynd SVN/Hlynur Sveinsson