Lítils háttar leki úr El Grillo
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. ágú 2023 10:51 • Uppfært 30. ágú 2023 10:53
Mengunarvarnagirðingu var komið fyrir í kringum flak breska olíuskipsins El Grillo sem liggur innst í Seyðisfirði eftir að lítilsháttar leka varð vart.
Mengunarvarnagirðingunni var komið fyrir við flakið um helgina. Að sögn Rúnars Gunnarssonar, yfirhafnarvarðar á Seyðisfirði, varð vart við olíuleka úr skipinu en hann virðist mjög lítill. Þekkt er að olía leki úr tönkum skipsins síðsumars þegar sjórinn er orðinn heitari.
Þýskar orrustuvélar sökktu olíubirgðaskipinu þann 10. febrúar árið 1944. Síðan hafa skipst á olíulekar og aðgerðir til að varna þeim. Í fyrra var kafað niður að flakinu og steypt upp í kringum op til að hindra olíuleka vegna tæringar. Þá var vitað um smáræðis olíu sem væri föst undir landgöngubrú en gæti losnað í hlýrri sjó.
Haustið 2021 veitti íslenska ríkið styrk til kaupa á mengunarvarnabúnaði, flotgirðingu með pylsum sem eiga að soga í sig mengunina. Sá búnaður var settur út í fyrra og sem fyrr segir aftur nú um helgina.