Ljósleiðarinn dettur seint úr tísku

Fyrirtækið Austurljós er eitt fárra fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins sem býður sjálft upp á netsamband og annað sem til þarf með ljósleiðara. Aðaleigandi þess og eigandi segir að ljósleiðari gegni áfram lykilhlutverki í gagnaflutningum þrátt fyrir nýjar og hraðari þráðlausar lausnir.

„Ljósleiðarinn er seint eða aldrei að detta úr tísku. Það helgast af því að við hér hjá Austurljósi sem dæmi, erum að bjóða netaðgang allt að tífalt hraðari og betri en gengur og gerist almennt. Þá er raunin enn sú að við erum bara að nota brotabrot af þeim gagnahraða sem ljósnetið getur boðið og það því ekki rétt að þetta kerfi verði úrelt eða gamaldags nokkuð á næstunni.

Þvert á móti getur ljósleiðarinn aukið gagnamagnið margfalt umfram það sem nú er hjá flestum heimilum og fyrirtækjum og hraðinn er alltaf góður. Nú geta heimili haft margar tölvur, mörg sjónvörp, leikjatölvur og ýmislegt meira sem okkur dettur í hug og ljósleiðarasamband dekkar það allt auðveldlega.

Það á ekkert endilega við um loftsambönd. Þar getur flökt orðið um reglulega við tilteknar aðstæður sem þýðir gott samband eina stundina en slæmt það næsta,“ segir Stefán Sigurðsson, sem fer fyrir Austurljósi.

Sjö ár eru síðan Stefán kom fyrst að Austurljósi sem í byrjun bauð upp á gagnahýsingu. Sú framtíð þótti ótraust en Stefán hafði reynslu af jarðvegsvinnu, var áður einn eigenda Malarvinnslunnar, og fór að vinna að því að koma stöðum í sambandi. Árið 2021 var síðan bætt í þjónustuna. „Það er að segja að bjóða bæði nauðsynlegar lagnir að húsum og einnig upp á netþjónustu gegnum þær lagnir í kjölfarið.“

Fyrirtækið hefur til þessa lagt áherslu á Fljótsdalshéraðs en einnig staðið í framkvæmdum á Seyðisfirði. Á Djúpavogi hefur verið beðið eftir ákvörðunum um meðal annars lagningu hitaveitu til að nýta jarðvinnu þar. Stefán segist einnig horfa til Fjarðabyggðar.  „Okkar vara er betri en það sem er í boði á þessum stöðum og það væri ekki leiðinlegt að geta byrjað á því verkefni strax með næsta hausti.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.