Ljóst að tíma tekur að byggja upp starfsandann innan slökkviliðs Fjarðabyggðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. jún 2023 10:34 • Uppfært 14. jún 2023 11:53
Stjórnendur hafa verið skipaðir til bráðabirgða hjá slökkviliði Fjarðabyggðar eftir að slökkviliðsstjóri og aðstoðarslökkviliðsstjóri hættu störfum um síðustu mánaðamót. Þeir óskuðu eftir að stíga til hliðar eftir úttekt mannauðsfyrirtækis á starfsanda og stjórnarháttum. Úttektin var gerð í kjölfar ásakana um óviðeigandi hegðun. Vinnuhópur með utanaðkomandi sérfræðingum hefur verið skipaður til að bæta andrúmsloftið til framtíðar. Bæjarstjóri segir viðbúið að tíma taki að komast starfsandanum í samt lag.
Mannlíf hefur að undanförnu fjallað um ásakanirnar sem urðu til þess að skýrslan var skrifuð. Samkvæmt umfjölluninni eru bornar á yfirmennina tvo að að hafa ekki sinnt starfsskyldum sínum og slælega stjórnarhætti auk þess sem aðstoðarslökkviliðsstjórinn hafi sýnt undirmönnum sínum kynferðislega áreitni.
Starfsandi og vinnulag ekki í lagi
Þórður Vilberg Guðmundsson, forstöðumaður stjórnsýslu- og upplýsingamála hjá Fjarðabyggð, segir að í desember í fyrra hafi bæjarráði, sem fer með málefni slökkviliðsins innan stjórnkerfis sveitarfélagsins, borist formlegar kvartanir um starfsanda og stjórnunarhætti í slökkviliðinu.
Bæjarráð hafi fjallað um þær ásakanir og þær farið í ferli sem fól í sér að strax var leitað að utanaðkomandi aðila til að rannsaka þær. Leitað hafi verið til nokkra fyrirtækja og hafi Attentus verið tilbúið að fara hraðast í vinnuna. Sérfræðingar Attentus byrjuðu að kafa ofan í málin í janúar meðan tilboð flestra annarra hljóðaði upp á margra mánaða bið.
Aðspurður um hvort stjórnendum sveitarfélagsins hafi verið kunnugt fyrr um að mál slökkviliðsins væru komin í óefni segir Þórður að einhverjir starfsmenn hafi heyrt sögusagnir um slíkt. Sveitarfélagið geti hins vegar ekki unnið að neinum máli á grundvelli sögusagna. Hann segir að enginn hafi verið sendur í leyfi á meðan rannsókninni stóð. Að öðru leyti svari sveitarfélagið ekki spurningum um veikindaleyfi einstakra starfsmanna nema þeir fari í þau af ýmsum ástæðum.
Aðspurður um hvort Attentus hafi í skýrslu sinni staðfest ásakanirnar gegn stjórnendunum svarar Þórður: „Í skýrslunni koma fram ákveðnar ásakanir sem Attentus skoðar og metur. Niðurstaðan er að starfsandi og vinnulag innan slökkviliðsins hafi ekki verið í lagi. Við tjáum okkur ekki um einstök atriði.“
Attentus skilaði skýrslu sinni til Fjarðabyggðar föstudaginn 31. mars síðastliðinn. Þá viku höfðu bæði stjórnendur sveitarfélagsins og viðbragðsaðilar, þar með talið slökkviliðið sem annast sjúkraflutninga innan sveitarfélagsins, staðið í stórræðum vegna snjóflóða og hættuástands vegna ofanflóða um nær allt sveitarfélagið. Við bættust bæjarstjóraskipti um þau mánaðamót þegar Jóna Árný Þórðardóttir tók við af Jóni Birni Hákonarsyni.
Stíga til hliðar eftir samtal
Niðurstöður skýrslunnar voru fyrst kynntar innanhúss hjá Fjarðabyggð áður en Þórður og Jóna ásamt Eyþóri Eðvarðssyni, M.A. í vinnusálfræði, funduðu með starfsfólki slökkviliðsins mánudaginn 17. apríl, viku eftir páska. Um leið virkjaðist frestur sem hlutaðeigandi starfsmenn slökkviliðsins höfðu til að andmælaréttar. Sem fyrr segir óskuðu stjórnendurnir síðan eftir að hætta störfum og gerðu það um síðustu mánaðamót.
„Það bera allir hag slökkviliðsins fyrir brjósti, þar með talið þessir yfirmenn. Því víkja þeir með hagsmuni slökkviliðsins að leiðarljósi,“ segir Jóna Árný. Nánar aðspurð um hvort þeir hafi átt frumkvæði að því að víkja svarar hún: „Þetta er samkomulag, lyktir verða aldrei þessar nema að undangengnu samtali. Þetta ferli hefur tekið allan maí með andmælaréttinum. Þegar leið á mánuðinn teiknaðist þessi niðurstaða upp. Það er engum sagt upp, það er þeirra niðurstaða og ósk að það væri öllum fyrir bestu að þeir stigju til hliðar.“
Aðspurð um hvort gerðir hafi verið starfslokasamningar við stjórnendanna svarar Jóna: „Við tjáum okkur ekki um það. Þetta er bara niðurstaðan – að þeir stigi út.“
Vinnueftirlitið hefur eftirlit með vinnuverndarlaga, en undir þau falla bæði einelti og kynferðisleg áreitni. Aðspurð um hvort einhverjum málum hafi verið vísað til eftirlitsins frá slökkviliðinu segjast Þórður og Jóna ekki tjá sig um mál einstakra starfsmanna. Engar áminningar hafa verið veittar í þessu ferli.
Leitt að vera komin aftur á þennan stað
Þetta er í annað sinn á tiltölulega stuttum tíma sem upp koma vandamál innan slökkviliðsins. Sumarið 2019 var slökkviliðsmanni sagt upp og annar áminntur eftir kvartanir samstarfskvenna. Fjarðabyggð var síðar dæmd til að greiða þeim sem sagt var upp bætur þar sem stjórnendur sveitarfélagsins hefðu ekki rannsakað málið nógu vel. Starfsmannamál sveitarfélagsins voru um það leyti til meðferðar innan bæjarkerfisins og voru til umfjöllunar vorið 2020 í fjölmiðlum. Tvö ráðgjafarfyrirtæki höfðu þá komið að því að reyna að uppræta slæman starfsanda innan liðsins. Að kaflaskilum var þó komið hjá þáverandi yfirmönnum slökkviliðsins vegna aldurs. Vorið 2021 voru ráðnir þeir stjórnendur sem nú hættu.
„Okkur þykir mjög miður að vera komin á þennan stað, þetta er ekki staða sem neinn vill vera í. Ég get ekki tjáð mig um fortíðina að öðru leyti en því en allir sem að þessum málum koma hefðu viljað sleppa því að vera í þessari stöðu.
Þessi staða endurspeglar ekki Fjarðabyggð sem vinnustað. Hjá okkur starfa yfir 400 manns í ýmsum stofnunum. Það er ekki mín upplifun eftir að hafa tekið við sem bæjarstjóri að staðan sé svona víða, þetta er staðan í einni starfseiningu.
Við getum samt ekki annað en tekist á við það sem við erum með í höndunum núna og erum að gera það,“ segir Jóna Árný um þá staðreynd að tveimur árum eftir síðustu umskipti innan liðsins virðist aftur vera komið á byrjunarreit.
Nýir stjórnendur til bráðabirgða og ráðgjafahópur
Nýir stjórnendur hafa verið skipaðir til bráðabirgða. Júlíus Albertsson hefur verið settur aðstoðarslökkviliðsstjóri og Indriði Margeirsson yfirvarðstjóri. Sveitarfélagið hefur einnig ráðið þrjá ráðgjafa til að vinna með sér og slökkviliðinu að úrbótum. Auk Eyþórs eru í honum sérfræðingur í mannauðsmálum og öryggisráðgjafi. Í haust bætist sérfræðingur í málefnum slökkviliða við. Þá fóru Jóna og Þórður ásamt bæjarráði til fundar við slökkviliðið á mánudag.
„Þessi hópur er kominn í fullan gang við búa til skipulag og áætlanir. Það gengur vel. Allir sem koma að þessu verkefni vinna að því af heilum hug. Ráðgjafarnir voru hjá okkur síðast á fimmtudag og verða hjá okkur reglulega. Næsti fasi í uppbyggingunni hefst í haust þegar sérfræðingur um málefni slökkviliða kemur til okkar. Sérfræðingarnir sem eru með okkur nú hætta ekki þá heldur fylgja okkur það til okkur líður betur með stöðuna. Við höfum að undanförnu skipulagt sumarfrí og annað sem þarf til að sumarið gangi upp eins og það eigi að gera. Það hafa allir unnið saman að því,“ segir Jóna Árný.
Hún segist finna fyrir stuðning frá slökkviliðsfólki við vinnuna. „Já, mér finnst ég gera það. Við erum með lið sem vinnur að heilindum að því sem þarf.“
Gefa sér tvö ár í að komast á góðan stað
Jóna Árný bendir þó á að umskiptin verði ekki á einu augabragði heldur taki sinn tíma. „Við gefum okkur að þurfa að halda vel utan um liðið í tvö ár til að komast á rétt ról. Það er erfitt að gefa út tímalínur en ef ég horfi raunsætt á hlutina þá myndi ég segja að eftir ár værum við komin á góðan stað og eftir ár í viðbót geta sagt að við hefðum komist alla leið. Til þess þarf að fara í gegnum ýmsa þætti og þess vegna fáum við sérfræðinga úr ólíkum áttum með okkur.
Með þessari vinnu eru málin komin í ákveðinn farveg sem við vonumst til að skapi frið og grunn að góðri og uppbyggilegri vinnu. Það ætla allir að gera þetta vel. Ekkert okkar sem komum að þessu máli bað um að vera í þessari stöðu en við verðum að vinna okkur saman út úr því,“ segir Jóna Árný að lokum.