Ljúka við þakið á nýju bræðslunni í dag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. mar 2022 13:34 • Uppfært 02. mar 2022 13:35
Stefnt er að því að ljúka við smíði á þaki nýrrar fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í dag. Húsið sjálft ætti að verða tilbúið upp úr miðjum mars.
Það er Landstólpi sem smíðar um 2000 fermetra stálgrindarhús utan um nýju bræðsluna. Þakjárnið var híft í sól og stilltu veðri fyrir rúmum tíu dögum síðan en veðrið setti strik í reikninginn í síðustu viku.
„Það gekk vel að hífa en svo gerðum við lítið í síðustu viku, var í raun fimm daga pása. Við getum ekki unnið í þakinu þegar snjóar.
Síðan komumst við aftur af stað á laugardag og erum að ljúka við það í dag,“ segir Viktor Máni Sigurðsson, verkstjóri Landstólpa á staðnum.
„Við höldum síðan áfram með klæðninguna á morgun og vonumst til að klára hana hana í næstu viku með þessu áframhaldi. Við erum meira en hálfnaðir með húsið og eigum svona 2-3 vikur eftir í vinnu við það,“ segir Viktor.
Samhliða vinnu Landstólpa er byrjað að koma fyrir tækjum húsinu. Í síðustu vikum var komið fyrir fjórum þurrkurum sem eru 50 tonn hver. Þeir voru hífðir á flutningavagna af krana utanhúss og síðan bakkað inn í húsið þar sem tveir minni kranar hífðu þurrkarana á sinn stað.
Trúlega tengja flestir Landstólpa við landbúnað, en fyrirtækið hefur reist fjós og útihús víða til sveita. Þetta er hins vegar ekki fyrsta húsið sem fyrirtækið smíðar fyrir Síldarvinnsluna en síðasta haust gerði það löndunarhús við Norðfjarðarhöfn.