Öllu starfsfólki StarfA sagt upp
Allt starfsfólk StarfA (Starfsendurhæfingar Austurlands) fékk í dag afhent uppsagnarbréf. Útlit er fyrir að starfsemin leggist af frá 1. júní. Skjólstæðingar StarfA eru um 40 talsins en þar er unnið með fólki sem misst hefur vinnu í skemmri eða lengri tíma til dæmis vegna sjúkdóma, slysa, eða félagslegra aðstæðna, og endurhæfa til vinnu og/eða náms, auka lífsgæði og endurnýja starfsþrek.
Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, segir að ekki hafi tekist að tryggja nægilegt fjármagn frá ríkinu. „Fjármagn StarfA dugar þangað til út maí eins og staðan er í dag, við treystum okkur því ekki til þess að halda starfsfólki í þeirri óvissu."
Starfssvæði StarfA nær frá Hornafirði til Vopnafjarðar og starfrækir starfsstöðvar á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Í dag eru þrír endurhæfingarhópar starfræktir í Neskaupstað, á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Hjá StarfA vinna 3 fastráðnir starfsmenn í 2 og ½ stöðugildi, jafnframt starfa að jafnaði 7- 9 verktakar á verktakasamningum.