Loðnubrestur hafði áhrif en skuldastaða Vopnafjarðar vel innan viðmiðunarmarka
Rekstur Vopnafjarðarhrepps á síðasta ári reyndist þyngri en vonir stóðu til en þar fyrst og fremst um að kenna loðnubresti sem hafði bein áhrif á tekjur og útsvar sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn afgreiddi ársreikning síðasta árs fyrir skömmu en það ár reyndust heildar rekstrartekjur A og B hluta alls tæplega 1,5 milljarður króna. Niðurstaðan varð neikvæð um 78 milljónir króna fyrir báða rekstrarhluta en 145 milljóna króna tap á A hlutanum einum og sér.
Allnokkrar breytingar urðu 2024 í rekstri Vopnafjarðar og þar veigamest að þungur rekstur hjúkrunarheimilisins Sundabúðar fluttist um mitt það ár úr höndum sveitarfélagsins til Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Loðnubrestur hafði og þau áhrif að til að mæta fjárfestingum og framkvæmdum þess árs var tekið 200 milljóna króna lán hjá Lánasjóði.
Eigið fé í árslok nam 915 milljónum króna og þrátt fyrir áföll vegna loðnubrests var skuldastaða hreppsins í lok árs góð og vel innan allra viðmiðunarmarka sem um skuldastöðu gilda.