Loðnuveiðar: Bræla hamlar líka íslenskum veiðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. feb 2022 12:11 • Uppfært 28. feb 2022 12:14
Stöðugur lægðagangur og þar með bræla hefur sett strik í reikninginn hjá íslensku loðnuveiðiskipunum. Um þriðjungur kvóta Norðmanna er afgangs.
Loðnuveiðum norskra skipa í íslenskri lögsögu lauk síðasta þriðjudag. Vegna brælu og takmarkanna náðu Norðmenn aðeins að veiða tæp 90.000 af ríflega 145.000 tonna kvóta sínum. Mismunurinn, um 56.000 tonn, fellur þá íslenskum skipum í skaut.
Samkvæmt frétt Sildelaget eru 2/3 hlutar aflans seldir til norskra kaupenda. Af öðrum kaupendum eru Íslendingar stórtækastir en einnig er nokkuð selt í Danmerkur í Skotland til mjöl- og lýsisvinnslu.
Bræla hefur líka hamlað veiðum íslensku skipanna á vertíðinni. Það kom þó ekki í veg fyrir að Hoffell næði sér í tæp 1600 tonn í 24 tíma veiðistoppi. Skipið er væntanlegt til Fáskrúðsfjarðar í kvöld og fer út aftur strax að lokinni löndun.
Aflinn fékkst á Breiðafirði en loðnuveiðiskipin eru ýmist þar eða inni á Faxaflóa. Loðnan hefur gengið hratt suður með landinu síðustu daga. Samkvæmt frétt frá Brimi er hrognafyllingin nú komin upp í 20% en hrognavinnsla hefst þegar hlutfallið er komið í 23%. Fulltrúar japanskra kaupenda eru fyrir nokkru mættir austur til að fylgjast með hrognavinnslunni.
Samkvæmt yfirliti Loðnufrétta er nú tæp 385.000 tonn veidd af ríflega 662.000 tonna kvóta Íslendinga. Aflaverðmæti er komið í um 28,5 milljarða króna.