Loðnuvertíðinni lokið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. mar 2022 08:49 • Uppfært 29. mar 2022 08:56
Síðustu landanir íslensku loðnuveiðiskipanna voru á sunnudag, flestöll þeirra eru nú bundin við bryggju. Aflaverðmæti vertíðarinnar er um eða yfir 50 milljarðar króna.
Samkvæmt vef Fiskistofu og Loðnufréttum voru fimm bátar úr Vestmannaeyjum síðastir til að landa á sunnudag. Aflinn var óverulegur, samanlagt 360 tonn.
Næst síðasta löndunin var hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði á föstudag. Hoffellið, auk færeysku skipanna Þrándar í Götu og Götuness lönduðu þá samtals 1.740 tonnum af hrognaloðnu. Alls voru 2.750 tonn af hrognaloðnu fryst á Fáskrúðsfirði á vertíðinni..
Samkvæmt yfirliti Loðnufrétta náðist ekki að veiða tæplega 166.300 tonn af um 680 þúsund tonna kvóta íslensku skipanna, eða um fjórðung. Veðurfar flækti veiðarnar auk þess sem loðnan eiginlega hvarf á lokametrunum. Samkvæmt vefnum er aflaverðmæti íslenska kvótans um 50 milljarðar króna.
Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir framkvæmdastjórum Síldarvinnslunnar og Loðnuvinnslunnar að trúlega sé það aðeins meira, enn eigi eftir að loka nokkrum samningum.