Skip to main content

Loðnuvinnslan kaupir útgerð frá Akranesi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. júl 2025 09:30Uppfært 30. júl 2025 09:33

Loðnuvinnslan hefur keypt Ebba-útgerð, sem gert hefur út línu- og netaveiðibátinn Ebba AK 37 frá Akranesi. Á Breiðdalsvík hefur Gullrún selt frá sér Austfirðing SU.


Samkvæmt gögnum frá fyrirtækjaskrá var gengið frá kaupum Loðnuvinnslunnar á Ebba fyrir mánuði síðan. Skessuhorn greindi fyrst frá þeim.

Um leið var 1,5 tonn af þorskígildistonnum flutt á Ljósafell. Ebbi hafði á yfirstandandi fiskveiðiári um 160 þorskígildistonn, sem skiptust nokkurn vegin jafnt á milli þorsks og ýsu.

Báturinn fór í sínar síðustu veiðiferðir í vor. Hann hefur síðustu vikur legið í Hafnarfjarðarhöfn. Ebbi var smíðaður nýr fyrir útgerðina árið 2007. Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Garðar Svavarsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, að ekkert sé ákveðið um framtíð Ebba.

Nánar aðspurður, um hvort Loðnuvinnslan sé með þessu að bregðast við niðurskurði á aflaheimildum fyrir næsta fiskveiðiár, svarar Garðar að samtalið um Ebba hafi byrjað seinni part vetrar og verið klárað í vor áður en kvóti næsta árs var gefinn út. Stefna Loðnuvinnslunnar síðustu ár hafi verið að styrkja sig í aflaheimildum þegar tækifæri gefast til að bæta nýtingu rekstrareininga félagsins.

Samkvæmt útreikningum Skessuhorns er verðmæti aflaheimildanna um einn milljarður króna. Í ársreikningi Ebba fyrir árið 2024 kemur fram að tekjur útgerðarinnar í fyrra námu 113 milljónum króna og hagnaður eftir skatta var um 30 milljónir.

Fleiri viðskipti hafa verið hjá austfirskum útgerðum að undanförnu. Báturinn Austfirðingur SU 205 var í lok júní seldur frá Gullrúnu á Breiðdalsvík til Steina á Hvammstanga. Báturinn heitir nú eftir útgerðinni þar. Báturinn, sem var upphaflega smíðaður sem Dúddi Gísla GK árið 2004, fór í sínar síðustu veiðiferðir fyrir Gullrúnu í lok janúar.

Ebbi AK á Akranesi. Mynd: Skessuhorn