Löng hefð fyrir hátíð í Hallormsstaðaskógi á Jónsmessunni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. jún 2023 16:50 • Uppfært 21. jún 2023 16:55
Skógardagurinn mikli verður haldinn í Hallormsstaðaskóg á laugardag. Dagskráin verður að mestu hefðbundin, með grillmat, lummum, ketilkaffi, skemmtiatriðum og skógarhöggskeppni en nú verður bætt í barnadagskrána auk þess sem gamall vinur heldur upp á stórafmæli.
Skógardagurinn hefur verið haldinn árlega frá árinu 2005. Að honum standa Félag skógarbænda á Austurlandi og Skógræktin ásamt félög sauðfjár- og nautgripabænda á Fljótsdalshéraði og Austfjörðum til að hvetja íbúa og gesti til að njóta þess að vera í skóginum.
„Dagurinn er mikilvægur til að fá almenning í skóginn, kynnast veðráttunni í honum og hvað við erum að gera. Við nýtum skóginn í leiki fyrir börnin til að sýna hvað hægt er að gera í kringum hann,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður.
Dagskráin hefst klukkan 13 með fyrri hluta Íslandsmeistarakeppninnar í skógarhöggi en frá hádegi verða þrautir og leikir í boði fyrir börnin. Dagskráin er að mestu hefðbundin, heilgrillað naut og lamb verða á boðstólnum, pylsur, lummur, ketilkaffi, tónlistaratriði og loks úrslitum skógarhöggskeppninnar.
Náttúruskólinn tekur nú í fyrsta sinn þátt í deginum með útileiki fyrir börnin. Þá mun Kókómjólkur-Klói halda með veglegum hætti upp á 50 ára afmæli sitt, en hann hefur fylgt Skógardeginum nánast frá upphafi.
Dagurinn er meðal stærstu viðburða ár hvert og var haldinn á ný í fyrra eftir tveggja ára hlé út af Covid-faraldrinum. „Þegar mest hefur látið hafa verið hér milli 1800 og 2000 manns. Í fyrra komu milli 1600 og 1700,“ segir Bergrún Arna.
Skógardagurinn byggir á langri hefð hátíðahalda í Hallormsstaðaskógi. „Jónsmessuhátíðir eru þekktar nánast síðan starfsemi í skógræktinni hófst. Jónsmessan er mikil skógarhátíð því þá eru vorverk skógarmanna að klárast. Við erum að ljúka við útplöntun. Áður fyrr voru það starfsmenn sem fögnuðu en nú höldum við Skógardaginn fyrir alla sem vilja koma og gleðjast með okkur í skóginum.“
Mynd: Ágúst Valgarð Ólafsson