Loka barnalaug og heitum potti vegna rafmagnsskorts
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. feb 2022 09:43 • Uppfært 16. feb 2022 09:46
Heitum potti og barnalauginni við sundlaugina í Neskaupstað hefur verið lokað tímabundið vegna skorts á rafmagni. Fjarvarmaveitur í Fjarðabyggð eru nú keyrðar á olíu.
Landsvirkjun tilkynnti í byrjun desember að draga þyrfti úr skerðanlegri raforku sem varð til þess að fiskimjölsverksmiðjur landsins hafa alla loðnuvertíðina gengið fyrir olíu. Skerðingarnar hafa haldið áfram og í byrjun mánaðarins var ljóst að keyra þyrfti fjarvarmaveitur Fjarðabyggðar, sem eru í Neskaupstað og á Reyðarfirði, fyrir olíu. Það hefur nú verið gert í viku.
Afleiðingar þess eru meðal annars þær að loka hefur þurft fyrrnefndum svæðum við Stefánslaug í Neskauptað sem og snjóbræðslukerfum við hana og skólana.
„Við höfum orðið fyrir skerðingu eins og aðrir kaupendur skerðanlegs rafmagns þannig við þurftum að færa okkur yfir á olíu. Það hefur verið kalt í veðri og notkunin mikil þannig að fjarvarmaveitan hefur ekki undan. Það er gefið að þetta eykur kostnað,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Fjarvarmaveitan í Neskaupstað er stærri en hún sér eignum í eigu ríkis og sveitarfélags, svo sem sjúkrahúsinu, Verkmenntaskólanum, grunnskólanum og sundlauginni fyrir hita. Veitan á Reyðarfirði hitar upp skólana.
Ástandið í Neskaupstað stendur til bóta í þessari viku þar sem viðarkyndistöð verður tekin í gagnið, líkt og Austurfrétt greindi frá í gær. Úr henni fæst um 500 KW afl, um það bil helmingur þess sem fjarvarmaveitan þarf.
„Þetta er tilraunaverkefni sem við erum mjög spennt fyrir. Það er sérlega gott að fá stöðina inn núna en við höfðum hugsað hana á móti rafmagni í venjulegu árferði,“ segir Jón Björn.
Hversu lengi fjarvarmaveiturnar þurfa að keyra á olíu liggur ekki fyrir. „Eins og Landsvirkjun hefur komið inn á þá linnir þessu ekki fyrr en staðan í miðlunarlónunum á Suðurlandi batnar. Það veltur á hvenær rignir þar, ekki vantar snjóinn þar núna,“ segir Jón Björn að lokum.