Loka senn hluta Miðvangs á Egilsstöðum vegna framkvæmda
Innan skamms verður litlum hluta Miðvangs í miðbæ Egilsstaða lokað vegna byggingaframkvæmda við nýtt fjölbýli fyrir eldri borgara.
Það er byggingafyrirtækið MVA sem sér um fyrsta áfanga þess verks en það er sérstakt félag eldri borgara, Sigurgarður, sem stendur að byggingu 24 íbúða fjölbýlishúss að Miðvangi 8 við hlið Hlymsblokkarinnar sem svo er kölluð.
Þegar hefur verið grafinn stór grunnur og segir Magnús Baldur Kristjánsson, framkvæmdastjóri MVA, að nú sé beðið eftir sérstökum staurum frá Þýskalandi sem séu á leiðinni til að hefja næsta skref en fyrirtækið mun einnig sjá um að setja upp botnplötu hússins í kjölfarið. Nauðsynlegt er að hafa pláss bæði fyrir vinnuvélar og tæki en líka einingar og annað sem til þarf og það kalli á þessa tímabundnu lokun á um 40 metrum af götunni frá gatnamótum og að lóð Hótel Héraðs.
„Við erum að gæla við að hefjast handa um miðjan næsta mánuð. Koma staurunum þá niður sem ætti að taka svona þrjár vikur eða svo þannig að þessum hluta verksins yrði lokið í lok október.“
Mynd tekin þegar fyrsta skóflustungan að nýja fjölbýlishýsinu var grafin fyrr í sumar. Sá hluti götunnar sem loka þarf um tíma á næstunni er beint fyrir framan vinnusvæðið. Mynd AE