Loka Stefánslaug að hluta virka daga vegna rafmagnsskerðingar

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að loka að hluta til aðal- og barnalaug Stefánslaugar í Neskaupstað um þriggja mánaða skeið. Ástæðan er skerðing Landsvirkjunar á rafmagni til sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið hefur um tíma reitt sig á svokallaða ótrygga orku Landsvirkjunar til að keyra meðal annars fjarvarmaveitur sínar í Neskaupstað og á Reyðarfirði. Þannig fæst mun ódýrari raforka en ella en á móti kemur að afhending hennar er háð nokkurri óvissu og fer bæði eftir notkun notenda en ekki síður vatnsbúskap Landsvirkjunar. Í byrjun árs tilkynnti Landsvirkjun að sökum lágrar stöðu lóna þyrfti að loka fyrir sölu á umræddri ótryggu orku að minnsta kosti út aprílmánuð.

Stór orkunotandi fjarvarmaveitunnar í Neskaupstað er Stefánslaugin sem tekur ein og sér um 40 prósent allrar orku þeirrar veitu. Þess vegna hefur verið brugðið á það ráð að loka aðallaug og vaðlaug hvern virkan dag um leið og skólasundi barna og ungmenna er lokið. Laugarnar, með öðrum orðum, opnar frá klukkan sjö á morgnana  þangað til skólasundinu lýkur þegar breitt verður yfir þær fram til næsta dags. Áfram skal þó hafa opið að fullu um helgar auk þess sem heitir pottar á laugarsvæðinu verða hins vegar áfram opnir eins og verið hefur.

Að mati sviðsstjóra framkvæmda og umhverfissviðs Fjarðabyggðar mun þessi ráðstöfun að líkindum spara um 20 prósent af orkuþörf sundlaugarinnar. Bæjarráð samþykkt þetta en setur þó þann varnagla á að fylgst verði með næstu vikurnar notkun um helgar og þær tölur lagðar fram á næsta bæjarráðsfundi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.