Loka afgreiðslu Landsbankans á Seyðisfirði
Ákveðið hefur verið af hálfu Landsbankans að loka afgreiðslu bankans á Seyðisfirði upp úr næstu mánaðarmótum.
Tilkynning þess efnis verður birt á vef bankans nú síðdegis en að sögn Ágústs Arnórssonar, útibússtjóra á Egilsstöðum, eru tvær ástæður helstar fyrir þessari ákvörðun.
„Annars vegar sú að eini starfsmaður útibúsins á staðnum er að hætta og snúa sér að öðru og af þeim sökum fórum við í greiningu á starfseminni sem leiddi í ljós hina ástæðu lokunarinnar sem er að þar eru afskaplega fáar daglegar afgreiðslur þegar útibúið er opið. Okkur telst til að þær séu ekki nema kringum fimm talsins hvern dag og það dregist gríðarlega mikið saman á tiltölulega skömmum tíma.“
Ágúst segir að áfram verði hraðbanki á staðnum þurfti fólk á slíkri þjónustu að halda en í raun sé ekki grundvöllur lengur fyrir starfsemi sérstakrar afgreiðslu með tilliti til hversu fáir nýta sér þá þjónustuna. Hins vegar verði í boði fyrir Seyðfirðinga eftirleiðis að fá beint samband við starfsfólk útibús bankans á Egilsstöðum ef aðstoð þarf í stað þess að fara hina hefðbundu leið gegnum símaver Landsbankans. Slíkt styttir bið og samband fæst við fólk á heimaslóð þó ekki sé það beint á Seyðisfirði.
Aðspurður um hvort til standi að loka fleiri útibúum bankans austanlands segir hann ekki svo vera. Bankinn vilji veita eins góða þjónustu í byggðum landsins og framast er unnt og áfram verði boðið upp á þjónustu í öðrum útibúum eins og verið hefur.