Skip to main content

Loka ýmsum vegum vegna veðurofsans

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2023 15:34Uppfært 10. okt 2023 16:46

Þegar er búið er að loka vegum um Fagradal, Vatnsskarð, Öxi, Hellisheiði eystri og vegkaflanum á milli Djúpavogs og Hafnar vegna veðurofsans austanlands. Sterkar líkur eru á að Fjarðarheiðinni verði einnig lokað nú síðdegis. Fyrir hádegi var veginum um Möðrudal einnig lokað vegna veðurs.

Bifreið fór útaf veginum á Fagradal fyrr í dag en engin slys urðu á fólki. Starfsmenn Vegagerðarinnar komu fólkinu til bjargar og í húsaskjól. Í dalnum hefur gengið á í dag með miku hvassviðri og öflugum vindstrengjum í og með. Veginum var formlega lokað fyrir klukkustund síðan en þar hafa hviður farið í 30 metra á sekúndu í ofanálag við krapa sem myndast hefur..

Snjóþekja og krapi eru á Fjarðar- og Mjóafjarðarheiði auk þess sem færð er að spillast vegna krapa í Jökuldal. Þá eru hálkublettir á Breiðdalsheiði. Vegagerðin metur það líklegt að loka verði Fjarðarheiðinni alfarið síðdegis og þar miðað við klukkan 17 eða svo nema veðrið gangi niður. Sömuleiðis telur Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, líklegt að veginum yfir Breiðdalsheiðina verði einnig lokað fljótlega enda þar vindhviður yfir 30 metrum á köflum.

Samkvæmt nýjustu veðurspám á aðeins að draga úr hvassviðrinu þegar líða fer á kvöldið á flestum stöðum austanlands.